CES-sýningin í Las Vegas er vettvangur margs þess nýjasta sem á góma ber í heimi tækninnar. Mörg bílamerki eru farin að nota sýninguna til að kynna nýja tækni bíla sinna eða íhluti þeirra. Sum tæknifyrirtæki ganga meira að segja svo langt að smíða bíl til að sýna hvað þau geta, eins og Sony-tæknirisinn sem sýndi Vision-S hugmyndabílinn. Önnur sýndu okkur inn í framtíðina, eins og Mercedes-Benz með Vision AVTR framtíðarbílinn, og enn önnur létu framtíðardrauma eins og flugbíla verða að raunveruleika, en Hyundai og Uber sýndu farartæki sem helst má útskýra sem blöndu dróna og bíls.

Fisker Ocean er rafjepplingur sem keppa á við Tesla Model X og Mustang Mach E svo eitthvað sé nefnt.

Fisker-rafbílamerkið tók forskot á sæluna og forsýndi Ocean-rafjepplinginn á þriðjudag á sérstakri sýningu í Los Angeles. Bíllinn mun kosta frá 37.500 dollurum eða 4,6 milljónum króna en Ocean fer á markað 2022. Það var enginn annar en Henrik Fisker, forstjóri Fisker, sem kynnti bílinn. Hann verður fáanlegur í nokkrum af lútfærslum, einnig fjórhjóladrifinn. Það verður sérstök aflútfærsla sem getur farið í hundraðið á 2,9 sekúndum. Sólarselluþak hleður smávegis af rafmagni sem samtals bætir um 1.600 kílómetrum við drægi bílsins ár hvert. Nafnið er komið til vegna endurvinnsluáhuga Fisker og hversu menguð úthöfin eru orðin af plasti. Hann notar því mikið af endurunnum plastefnum í smíðina.

Rafbíll Sony er ekki hugsaður á göturnar né heldur á tölvuskjáinn heldur til að sýna hversu tæknirisinn er megnugur.

Sony frumsýndi Vision-S hugmyndabílinn en honum er ekki ætlað að fara í framleiðslu heldur til að kynna þá margmiðlunartækni sem fyrirtækið hannar og smíðar. Hann er rafbíll sem getur keyrt og náð 240 kílómetra hraða ef út í það er farið. Það sem Sony vill kynna fyrst og fremst er Sony Safety Cocoon öryggisnetið. Það fylgist með hættum kringum bílinn og lætur hann bregðast við þeim. Myndaskynjarar skilgreina hættuna og Lidar-skynjarar mæla fjarlægð og stærð. Svipað kerfi er innandyra sem getur þekkt hverjir eru í bílnum og munað hvaða stillingar og tónlist þeir vilja. Mælaborð bílsins er með skjáum sem ná yfir alla breidd hans eins og sjá má í mörgum tilraunabílum í dag. Notast þarf þó við stýri í stað Playstation-stýripinna.

Draumurinn um flugbíl er kannski nær en við höldum en S-A1 er nokkurs konar blanda dróna og bíls.

Hyundai sýndi í samstarfi við Uber samgöngutæki sem er nokkurs konar sambland dróna og flugvélar. S-A1 er einkaflugvél sem ætluð er til notkunar í borgum og fer lóðrétt í loftið en tækið er knúið fjórum rafmótorum sem snúist geta áfram. Það er fimm sæta og sér Hyundai fyrir sér að í framtíðinni geti notendur þess pantað ferð með símanum sínum líkt og Uber-bíl. S-A1 nær um 300 kílómetra hraða og getur farið í um 700 metra hæð allt að 100 kílómetra vegalengd. Þótt S-A1 þurfi flugmann eins og er mun ætlunin að gera hann óþarfan með öllu. Hluti farartækisins getur klofið sig frá flugvélinni og ferðast á jörðu niðri.