„Það er rosalegt álag á öllum heilsugæslum og læknavaktinni. Það eru margar pestir í gangi í samfélaginu og mikið af veikum börnum,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Hún biðlar til fólks að sýna biðlund og ekki koma á heilsugæslustöðvar að óþörfu.

„Við biðjum fólk að rjúka ekki til og láta hlusta börnin eða skoða þau nema þau séu búin að vera veik lengi eða hafi alvarleg einkenni. Heldur vera heima með börnin í rólegheitum og hlúa að þeim.“

Hún segir álag á heilbrigðiskerfið ekki einungis bitna á Landspítalanum, allt heilbrigðiskerfið sé undirlagt af Covid.

„Við finnum það greinilega að umræðan um Covid hefur haft þau áhrif að fólki finnist það frekar þurfa að koma og láta skoða sig og það virðist vera mikill heilsukvíði í samfélaginu.“