Mikið álag er á starfsfólki þingfundarskrifstofu Alþingis, en eins og vitað er hafa þingfundir staðið langt fram á morgun á undanförnum dögum. Hvíld um helgina er kærkomin fyrir starfsfólkið eftir uppsafnaða þreytu, segir skrifstofustjóri Alþingis.

Þingmenn Miðflokksins hafa beitt málþófi gegn hinum svokallaða þriðja orkupakka, og hafa þingfundir staðið upp undir morgun á undanförnum dögum sökum þess.

Mjög óvenjulegt að þingfundir standi svo lengi

Eins og alltaf þurfa þó starfsmenn þingsins að standa vaktina eftir duttlungum stjórnmálanna. Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir að álagið sé mikið, sérstaklega á sérhæfðu starfsfólki. „Þetta er auðvitað mikið álag, það segir sig sjálft. Við erum ekki vön því að þingfundir standi svona lengi, þetta er mjög óvenjulegt,“ segir Helgi í samtali við Fréttablaðið. „Við erum vön kvöldfundum og einstaka sinnum svokallaðir næturfundir, sem standa yfir eitthvað fram yfir miðnætti, en að þingfundir standi svona fram undir morgun er mjög óvenjulegt og því fylgir miklu álagi, það er ekki hægt að leyna því.“

Um hvíldartíma starfsmanna Alþingis fer eftir kjarasamningi forseta Alþingis við Félag starfsmanna Alþingis (FSA). Samkvæmt honum skal haga vinnutíma þannig að á hverjum sólarhring fái starfsmaður a.m.k. 11 tíma samfellda hvíld, og óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að vinnutími starfsmanna fari umfram 13 klukkustundir. „Það er þessi 11 tíma lágmarkshvíld sem við reynum að halda. Ákvæðin í kjarasamningum eru alveg skýr. Þeim er að mestu framfylgt en sum störfin eru slík að þau eru mjög sérhæfð og ekki hver sem er sem getur gengið í þau,“ segir Helgi.

Kærkomin hvíld um helgina

Hann segir að það sé erfitt að fylgja reglum kjarasamninga á allra mesta álagstíma, en að reynt sé að bæta starfsfólki það upp með fríi. Helgi segir þó að starfsfólk Alþingis sýni stöðunni skilning. „Við teljum að forseti [innsk. blaðam. Alþingis] sé í mjög erfiðri stöðu að eiga við þetta, svo við erum sannarlega ekki að ásaka hann. En þetta er vissulega mikið álag og þetta eykur ekki starfsgleðina, ef svo má segja,“ heldur Helgi áfram. „Það er auðvitað mikill metnaður í starfsfólkinu að þetta getið gengið sem best, en það er mikil þreyta í fólki og sú hvíld sem það fær núna um helgina er mjög kærkomin,“ segir hann að lokum.