Forsætisráðherra segir það mikið áhyggjuefni í hve mikinn hnút deila Eflingar og Samtaka atvinnulífsins sé komin. Hún segir ekki hafa komið til tals á vettvangi ríkisstjórnar að beita sér í deilunni.
Fréttablaðið innti Katrínu Jakobsdóttur viðbragða við þeim fregnum sem bárust í morgun af því að Efling hefði samþykkt frekari verkfallsboðanir og ákvörðun SA um að stefna Eflingu fyrir Félagsdóm.
„Þessi verkfallsboðun í raun og veru bara staðfestir það sem svo sem hefur blasað við. Deilan er í mjög hörðum hnút og þetta bætist ofan á margvísleg kærumál í raun og veru allra aðila gagnvart hverjum öðrum,“ segir Katrín.
„Þannig að augljóslega er deilan í mjög hörðum hnút og það er auðvitað bagalegt og mikið áhyggjuefni fyrir okkur öll því æskilegast er að svona mál leysist við samningaborðið.“
Aðspurð segir hún ekki hafa komið til tals hjá ríkisstjórninni að beita sér vegna málsins með einhverjum hætti og segir það ekki á döfinni.
„Nei, það munum við ekki gera og höfum ekki rætt neitt slíkt. Þetta verkfall skellur á eftir viku. Það liggur í raun ekki fyrir hvort að nokkur niðurstaða hefur fengist í þau mál sem verið er að reka, annars vegar af hálfu Eflingar, af hálfu sáttasemjara og af hálfu SA. Við munum bara sjá, þetta verður allt að hafa sinn gang.“
Aðspurð út í áhrif á efnahagslegar horfur segir Katrín að um afmarkaðan hóp sé að ræða sem fara muni í verkfall.
„En auðvitað ef að þessi deila dregst á langinn þá er það eins og allir sjá bagalegt, það er áhyggjuefni.“