Íbúar við Holtsveg í Urriðaholti urðu margir hverjir fyrir miklu tjóni síðastliðinn föstudag þegar bilun kom í raf­magns­kassa, sem varð til þess að spenna hækkaði umtalsvert í sumum íbúðanna. Mikið af tækjum urðu fyrir skemmdum, en ekki liggur fyrir hversu mikið tjónið er, þó er ljóst það varði milljónir króna.

Svava Dís Guðmundsdóttir, formaður húsfélagsins í Holtsvegi átta til tólf, segir stöðuna valda íbúum miklum óþægindum. Hún greinir til að mynda frá því að enn sé heitavatnslaust í stigaganginum sínum.

Auk þess hafi mikið tjón orðið sameigninni. Sem dæmi megi nefna að ljós hafi slegið út og að lyftur séu bilaðar. Þar að auki varð gríðarlegt tjón í íbúðum fólks, en þar hafi dýr og mikilvæg tæki eins og bakaraofnar, og eldavélar bilað. Þá heyrði Svava af því að örbylgjuofn hafi sprungið í einni íbúð.

„Þetta eru allt tæki sem maður notar daglega. Manni væri meira sama ef hleðslutæki hefði eyðilagst.“ segir Svava. Hún telur  að tjónið fyrir húsfélagið varði milljónir, og segir að maður geti einungis ímyndað sér tjónið í íbúðunum.

Ekki fengið svör frá tryggingafélaginu

„Þetta er mikið áfall og mikil vinna,“ segir Svava, sem telur óvissuna vera eitt þar erfiðasta við málið.

Mbl.is greindi fyrst frá málinu í gær, en í frétt miðilsins kom fram að rafmagnskassinn væri á vegum HS veitna og var haft eftir Júlíusi Jónssyni, forstjóra fyrirtækisins, að líkt og staðan væri núna væri málið á ábyrgð fyrirtækisins. Þá benti hann fólki á að að hafa sam­band við VÍS, trygg­inga­fé­lag HS Veitna, vegna málsins.

Svava segist sjálf hafa haft samband við VÍS þar sem það sé jafnframt tryggingarfélag húsfélagsins. Hún segist ekki hafa fengið svör frá því um hver beri ábyrgð á málinu, og þykir það auka óvissuþáttinn.