Töluvert hefur borið á olíublautum sjófuglum í Vestmannaeyjum undanfarna daga og vikur. Umhverfisstofnun hefur þó ekki fundið uppruna mengunarinnar. Þetta hefur verið viðvarandi vandamál í langan tíma en Fréttablaðið greindi frá því í fyrra að mikill fjöldi lundapysja kæmu úr Vestmannaeyjahöfn, að því er virtust, olíublautir.

Hafnaryfirvöld neituðu í fyrra að um væri að ræða olíuleka en bentu á að Eimskip væri að nota nýjan úblásturshreinsibúnað í skipi sínu sem skolaði sjóblönduðu sóti út í höfnina. Eimskip greinir frá því að það hafi verið einangrað atvik, þar sem úblásturshreinsibúnaður hafi verið prófaður, en slíkt hefur ekki verið gert síðan í september í fyrra við Vestmannaeyjahöfn.

Mynd/Pétur Steingrímsson

Kvalafullur dauðdagi fyrir fuglana

Pétur Steingrímsson, íbúði í Vestmannaeyjum og göngugarpur, segir leiðinlegt hve mikið sé af olíublautum fuglum í fjörunum. Mest hafi hann orðið var við þetta í Brimurðinni og Löngunni.

„Ég varð var við þónokkuð af olíublautum æðakollum og blikum. Flestir gátu tekið á sprett út í sjó en þeir syntu bara rétt út fyrir og komu aftur upp í fjöruna vestast. Þeir synda aldrei langt. Þegar þeir eru olíublautir þá finna fuglarnir að þeir sökkva. Olían eyðileggur fituna, þeir blotna í gegn, missa flothæfnina og krókna úr kulda. Þetta er kvalafullur dauðdagi,“ segir Pétur í samtali við Fréttablaðið.

Hann segist hafa séð dauða olíublauta skarfa, langvíur, kollur og blika um Lönguna í Vestmannaeyjum.

Óskar Elías Sigurðsson fuglaáhugamaður segir að þetta sé búið að vera í gangi í minnsta kosti tvo mánuði. Þá hafi hann fundið himbrima í Höfðavíkinni sem var olíublautur. Hann hafi verið mjög styggur og því ekki hægt að ná honum. Í gær hafi hann séð nokkrar olíublautar æðakollur í Skipasandi og æðablika sem var gegnblautur og grindhoraður.

Mynd/Óskar Elías Sigurðsson

Starfsfólk og sjálfboðaliðar Sealife Trust sjá um að þrífa fuglana og smyrja fjaðrirnar með fitu úr fitukirtli undir stélinu, þannig að þeir verði vatnsheldir aftur.

Flestir fuglarnir hafa fundist við höfnina í Heimaey og í Klaufinni, rétt við Stórhöfða. Olíublautar langvíur hafa einnig fundist í Reynisfjöru, en óljóst er hvort þessi mál tengjast.

Margrét Lilja Magnúsdóttir hjá Sealife Trust sagði í samtali við Eyjafréttir að óvenju mikið hafi borist af menguðum fuglum inn á safnið í vetur. Hún sagði olíuna brenna fuglana að utan sem innan og að flestir þeirra drukkni þegar olían brennur burtu fitulagið sem heldur fuglunum vatnsþéttum.

Mikið af af hræum og olíublautum fuglum.
Mynd/Óskar Elías Sigurðsson

Fulltrúi Umhverfisstofnunar fann ekkert í eftirlitsflugi

Þyrla Landhelgisgæslunnar fór með fulltrúa Umhverfisstofnunar í eftirlitsflug síðastliðinn þriðjudag í leit að uppruna mengunarinnar. Flogið var umhverfis allar eyjar Vestmannaeyja og að Reynisfjöru en ekkert fannst í þeim leiðangri. Umhverfistofnun vinnur áfram í því að leita að uppruna mengunarinnar, meðal annars með aðstoð Landhelgisgæslu Íslands og EMSA, Siglingaöryggisstofnun Evrópu. 

Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, sagði í samtali við Fréttablaðið í fyrra að um það bil 100 lundar kæmdu úr höfninni í Vestmannaeyjum ataðir svartolíu á ári hverju. Hafnaryfirvöld hafa hins vegar neitað um olíuleka sé að ræða.

Ólafur Snorrason, framkvæmdastjóri Umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar, sagði að um væri að ræða brennisteinsagnir úr útblásturshreinsibúnaði Eimskips, sem væri aðferð samþykkt af Umhverfisstofnun.

„Sjóblandað sót“ frá Eimskip í fyrra

Fréttablaðið hafði samband við Eimskip varðandi útblásturshreinsibúnaðinn sem minnst var á í málinu með lundana í fyrra og fékk þau svör um að aðferðin stæðist alþjóðlegum kröfum.

„Útblásturs hreinsibúnaður virkar þannig að notað er vatn eða sjór til að hreinsa brennistein í afgasi frá skipsvélinni til að lágmarka loftmengun. Lagarfoss er útbúinn slíkum búnaði og munu skipin tvö sem Eimskip er með í smíðum í Kína einnig verða útbúin útblásturs hreinsibúnaði. Alþjóðareglur hafa í nokkurn tíma hert á kröfum og stöðlum með ákvæðum til að draga úr útblástursmenguninni. Að hreinsa afgasið frá útblæstri er aðferð til að mæta þessum alþjóðlegu kröfum,“ sagði Edda Rut Björnsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri Eimskip, í samtali við Fréttablaðið í fyrra.

Tekið er fram að umrætt atvik hafi verið einstakt og hafi ekki komið upp aftur.

Mynd/Óskar Elías Sigurðsson

Í fundargerð framkvæmda- og hafnarráðs kom þetta einnig fram:

„Fyrir liggur svar frá Eimskip vegna virkni mengunarvarnarbúnaðar í flutningaskipum félagsins. Fram kom í svari Eimskips að útblásturshreinsibúnaður var settur í Lagarfoss núna nýlega, þ.e. svokallaður "open loop scrubber". Um er að ræða umtalsverða fjárfestingu en þetta er ný tækni í þeirra flota. Vélstjórarnir á skipinu hafa verið að prófa sig áfram með rekstur búnaðarins. Umrætt atvik í Vestmannaeyjum er tilkomið vegna þess að búnaðurinn var í notkun þegar skipið fór frá bryggju. Við það skolaðist sjóblandað sót í höfnina.

Eimskip vill árétta að ekki er um olíumengun að ræða, heldur eru þetta losunarefni úr hreinsibúnaðinum, samblanda af sjó og brennisteinsögnum, sem eru hreinsaðar úr útblæstrinum til þess að lágmarka loftmengun. Hreinsibúnaðurinn var framleiddur og er starfræktur í samræmi við leiðbeiningar IMO MEPC 68/21/Add.1 2015 Guidelines for exhaust gas cleaning systems.“