Innflutningur á fæðubótarefnum sem innihalda melatónín, sem bannað er á Íslandi, hefur stöðugt aukist hér á landi, einkum frá Spáni, Ítalíu og Póllandi.

Matvælastofnun vekur athygli á þessu á vef sínum, en augljóst sé að almenningur viti ekki að hann er að koma með ólöglega vöru inn til landsins. Hérlendis sé efnið flokkað sem lyf og því beri tollayfirvöldum að leggja hald á allt fæðubótarefni með melatóníni sem flutt er til landsins.

Melatónín er virkt efni í ýmsum lyfjum, en frá náttúrunnar hendi hefur það róandi áhrif og framleiðir líkaminn það einkum til að auðvelda fólki svefn.

Lyfið er lyfseðilsskylt hér á landi, ólíkt mörgum nágrannalöndum, í sumum Evrópulöndum og í Bandaríkjunum þar sem fæðubótarefni með melatóníni er leyfilegt.

Stofnunin segir þá staðreynd að melatónín sé fáanlegt löglega sem fæðubótarefni annars staðar í Evrópu, til dæmis á Spáni, Ítalíu og í Póllandi, hafa valdið því að innflutningur á vörum sem innihalda melatónín hefur stöðugt aukist, en það endurspeglist í því mikla magni sem tollgæsla hefur lagt hald á.

Vegna alls þessa misskilnings um hvort efnið sé löglegt eða ekki á Íslandi hefur Matvælastofnun nú óskað eftir áliti Lyfjastofnunar um hvort melatónín skuli flokkast áfram sem lyf hérlendis, eða hvort ástæða sé til að endurskoða þær reglur.