Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var laust fyrir miðnætti tilkynnt um stúlku í austurbænum sem byrlað hafði verið ólyfjan. Hún var flutt á slysadeild til aðhlynningar, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu. 

Talsverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Mikill fjöldi brota er skráður í dagbók lögreglu og lögreglan sinnti mjög fjölbreyttum verkefnum.

Klukkan átta kom ung kona á lögreglustöðina í Hafnarfirði og tilkynnti að veski hennar og síma hefði verið stolið. Munirnir fundust við Garðatorg en þá var síminn skemmdur, búið að stela 20 þúsund krónum úr veskinu og nota debetkortið fyrir 2870 kr. Gerandinn er ófundinn.

Mikið var um þjófnaðartilkynningar. Tveir stálu úr verslun, einn stal söfnunarbauk Rauða krossins úr verslunarmiðstöð, hjóli var rænt og áfengi var stolið af Hótel Hilton. Aðeins einn þessara þjófa náðist og skýrsla var tekin af honum.

Maður reyndi að fara inn um opinn glugga í Breiðholti í nótt, en hann lét sig hverfa þegar húsráðandi kom að honum.

Klukkan hálfníu var tilkynnt um heitt vatn sem var að flæða um Lækjargötu, loka þurfti götunni á meðan starfsmenn Veitna stöðvuðu lekann.

Upp úr tíu var tilkynnt um æstan og orðljótan mann sem hótaði að berja lögreglumenn sem komu á vettvang, en hann gekk að lokum í burtu.

Fimm einstaklingar í annarlegu ástandi voru til vandræða. Ölvuð kona sparkaði í hurðir á stigagangi, tveir menn reyndu að komast inn þar sem þeir voru ekki velkomnir, einn neitaði að yfirgefa bráðamóttöku Landspítalans og annar var til svo mikilla vandræða í Árbæ að hann var handtekinn og látinn gista fangageymslu.

Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum og látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.

Tveir menn í Vesturbænum þurftu aðstoð vegna lyfjanotkunar í gærkvöldi og voru fluttir á spítala.