Mjög mikið var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu síðdegis í gær og í gærkvöldi, en milli fjögur og tólf á miðnætti komu 52 verkefni inn á borð hennar. Nóttin sjálf var svo frekar róleg. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Skömmu fyrir níu var karlmaður handtekinn í Breiðholti eftir að hafa ráðist á lögreglu, en hún var kölluð til því hann var að ráðast á fólk og hóta því. Hann var í mjög annarlegu ástandi vegna fíkniefnaneyslu.

Annar maður var handtekinn eftir að hafa ráðist á lögreglu í miðbænum rúmlega eitt í nótt. Lögregla var að ræða við dyravörð veitingastaðar þegar maðurinn kom og réðst á hana. Hann var vistaður í fangageymslu.

Upp úr níu í gærkvöldi var tilkynnt um tvær líkamsárásir á sitt hvorum staðnum, önnur í Hraunbæ og hin í Mosfellsbæ. Vitað er hver hinn grunaði er í árásinni í Hraunbæ og málið er til rannsóknar, en tveir urðu fyrir lítils háttar meiðslum í árásinni í Mosfellsbæ.

Rétt fyrir fimm í gær var ráðist að ökumanni sem var að gera við bíl sinn á bifreiðastæði í austurbænum. Árásaraðilar brutu rúður í bílnum og fóru svo á brott. Engin meiddist en það var talsvert tjón.

Skömmu fyrir ellefu í gærkvöldi var tilkynnt um tvo menn sem voru í átökum í heimahúsi og beindu hnífum gegn hvor öðrum, en engin meiðsl urðu á fólki og mennirnir höfðu lagt hnífana niður þegar lögreglan kom.

Rétt fyrir hálfníu var tilkynnt um innbrot í heimahús í Kópavogi. Lögreglumenn voru enn að vinna á vettvangi þegar fréttatilkynning lögreglu var send út.

Fimm ökumenn voru handteknir vegna gruns um akstur undir áhrifum. Einn þeirra var með fíkniefni og eggvopn í fórum sínum og annar hafði aldrei öðlast ökuréttindi. Enn annar ökumaður var svo stöðvaður vegna furðulegs aksturslags og fyrir að aka gegn rauðu ljósi og fékk sekt fyrir.

Tvær íbúðir þurfti að reykræsta. Rétt fyrir sjö í gærkvöldi höfðu íbúar sofnað vegna áfengisneyslu á meðan pottur var á eldavélinni og skömmu fyrir hálfellefu var tilkynnt um eld í einbýlishúsi í Breiðholti, en búið var að slökkva eldinn þegar viðbragðsaðilar komu á staðinn.

Um hálfeitt í gær var hópbifreið stöðvuð en ökumaður reyndist ekki nota ökuritakort eins og honum bar. Hann og fyrirtæki hans fengu sekt fyrir.

Um hálffimm í gær voru höfð afskipti af ungmennum í Hafnarfirði sem voru að sprengja flugelda sem þau höfðu tekið í sundur. Barnaverndaryfirvöldum var gert viðvart og foreldrar ungmennanna látnir vita.

Rétt fyrir miðnætti í gær var svo ofurölvi maður handtekinn í miðborginni en hann gat ekki sagt lögreglu heimilisfang sitt og var ekki hæfur til að vera úti vegna ástands síns. Hann var vistaður í fangageymslu þar til hann jafnar sig.