Múgurinn sem leitaði markvisst að Mike Pence, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, í árásinni á þinghúsið í byrjun janúar var einungis nokkrum metrum frá honum á einum tímapunkti.

Umræður um ákæru á hendur Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, standa nú yfir á Bandaríkjaþingi. Trump er ákærður til embættismissis fyrir að hvetja til uppreisnar í tengslum við ó­eirðirnar við banda­ríska þing­húsið þann 6. janúar síðast­liðinn.

Full­trúa­deildar­þing­mennirnir sem fara fyrir ákærumálinu gegn Donald Trump hafa nú birt nokkur myndbrot sem sýna kort af þinghúsinu ásamt upptökum úr öryggismyndavélum til að gefa betur yfirsýn yfir ferðir óeirðaseggjanna og hvar þingmennirnir, varaforsetinn og forseti fulltrúardeildarinnar voru þegar brotist var inn í þinghúsið.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær öskruðu óeirðaseggirnir, sem brutu sér leið inn í þinghúsið, að þeir vildu „hengja Mike Pence.“

Lög­reglu­maðurinn Eu­gene Goodman náði að draga athygli fólksins frá þingsal öldungardeildarinnar og var þannig hægt að koma Pence í skjól.

Lífverðir Pence leiddu hann inn í herbergi skammt frá þingsalnum, þar sem Pence hélt til ásamt eiginkonu sinni og dóttur en um mínútu síðar tókst áhlaupamönnum að ráðast inn á aðra hæð salarins.

Hér fyrir neðan má sjá myndband sem þingmennirnir sýndu á þriðja degi umræðna.