Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, mun dvelja lengur á Íslandi en upphaflegar áætlanir stóðu til um. Þetta verður tilkynnt innan skamms á vef Hvíta hússins. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins ætlast varaforsetinn með þessu til að funda með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands og er undirbúningur vegna fundarins hafinn.
Upphaflega kom fram í tilkynningu Hvíta hússins þann 15. ágúst síðastliðinn að varaforsetinn myndi heimsækja Ísland þann 3. september næstkomandi, hitta Guðlaug Þór Þórðarson, utanríkisráðherra og ferðast svo til Bretlands daginn eftir.
Fjarvera Katrínar á meðan heimsókn hans stendur hefur vakið heimsathygli en Katrín verður á ársþingi Norrænu verkalýðshreyfingarinnar í Svíþjóð þann 4. september næstkomandi. Katrín hefur ítrekað lýst því yfir að nærvera Pence hafi ekki haft áhrif á ákvörðun sína, fundurinn hafi verið ákveðinn áður en heimsókn hans hafi verið tilkynnt.
Hefur meðal annars sagnfræðingurinn Þór Whitehead lýst því yfir að afar fáheyrt sé að leiðtogar vestrænna ríkja ákveði að vera erlendis í stað þess að taka á móti leiðtogum Bandaríkjanna.
Komið hefur fram að varaforsetinn ætli sér meðal annars að ræða mikilvægi landfræðilegrar legu Íslands á norðuheimskautssvæðinu, sem og starfsemi NATO vegna aukinna umsvifa Rússlands í heimshlutanum.