Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna hefur formlega hafnað áskorunum um að hann beiti því valdi sem 25. gr. stjórnarskrár Bandaríkjanna veitir honum til að leggja til við ríkisstjórnina að Donald Trump, sitjandi forseti verði fjarlægður úr embætti sínu.
Pence tilkynnti Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings ákvörðun sína með bréfi aðfararnótt miðvikudags.
„Ég tel hvorki að sú leið þjóni hagsmunum þjóðarinnar best né sé í samræmi við stjórnarskrá okkar.“
„Ég tel hvorki að sú leið þjóni hagsmunum þjóðarinnar best né sé í samræmi við stjórnarskrá okkar,“ segir í bréfi Pence til þingforsetans.
Ljóst af þessu að Fulltrúadeildin mun greiða atkvæði í dag, miðvikudag, um ákæru á hendur Donald Trump, sitjandi Bandaríkjaforseta, til embættismissis, en Pelosi hefur þegar lýst því yfir að þessi leið verði farin, hafni Pence áskorunum um beitingu 25. gr. stjórnarskrárinnar.
Klofningur hjá Repúblikunum
Æ fleiri þingmenn úr röðum Repúblikunum lýsa því yfir að þeir styðji ákæru á hendur forsetanum. Meðal þeirra eru tólf fulltrúadeildarþingmenn, en þrír þingmenn Repúblikana hafa tilkynnt það opinberlega að þeir muni kjósa með því að ákæra Trump, þar á meðal Liz Cheney, dóttir Dick Cheney, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna.
Þá er leiðtogi Repúblikana innan öldungadeildarinnar, Mitch McConnell, sagður vera ánægður með það að fulltrúadeildin ákæri Trump, samkvæmt frétt New York Times um málið, þar sem hann telur hátterni forsetans í aðdraganda óeirðana 6. janúar skýrt embættisbrot og að brottrekstur Trumps myndi vera til þess að þjappa Repúblikunum saman.
Aðrir háttsettir Repúblikanar, til að mynda Kevin McCarthy, leiðtogi minnihluta fulltrúadeildarinnar, hafa ekki lýst afstöðu sinni til ákæru opinberlega en hafa heldur ekki beitt sér gegn þeim. Ljóst er að klofningur er innan flokksins.
This happening fast. McConnell thinks Trump has committed impeachable offenses. Liz Cheney will vote yes; and Kevin McCarthy "the minority leader and one of Mr. Trump’s most steadfast allies in Congress, has asked other Republicans whether he should call on Mr. Trump to resign.."
— Charlie Sykes (@SykesCharlie) January 12, 2021
Hershöfðingar senda skilaboð til heraflans
Þá hafa æðstu yfirmenn herafla Bandaríkjanna sent áréttingu til alls heraflans þess efnis að það sé hlutverk hersins að vernda stjórnarskrána og hafna öfgum.
„Sem fyrr, mun bandaríski herinn hlýða lögmætum skipunum lýðræðislega kjörinna valdhafa, styðja stjórnvöld við að vernda líf og eignir borgaranna, tryggja almannaöryggi í samræmi við lög og halda áfram að vernda og verja stjórnarskrá Bandaríkjanna, gegn óvinum hennar, erlendum og innlendum,“ stendur meðal annars í erindi til heraflans, undirrituðu af átta hershöfðingjum.