Mike Pence, sitjandi vara­for­seti Banda­ríkjanna, hefur nú fengið bólu­efni við CO­VID-19 en Pence var bólu­settur í beinni sem hluti af á­taki yfir­valda til þess að fá sem flesta til þess að taka þátt í bólu­setningar­á­takinu og efla trú á virkni bólu­efnisins.

Donald Trump, sitjandi Banda­ríkja­for­seti, var ekki við­staddur þegar at­höfnin fór fram á Walter Reed sjúkra­húsinu en Trump greindist sjálfur með veiruna í októ­ber. Hann hefur verið harð­lega gagn­rýndur fyrir við­brögð sín við far­aldrinum en Banda­ríkin hafa komið sér­stak­lega illa út úr far­aldrinum.

Líkt og áður hefur verið greint frá var neyðar­heimild gefin fyrir notkun bólu­efnis Pfizer og BioN­Tech í síðustu viku en Banda­ríkja­menn fylgdu þar í fót­spor Breta sem gerðu slíkt hið sama fyrr í mánuðinum. Þá er gert ráð fyrir að bólu­efni Moderna verði sam­þykkt mjög fljót­lega í Banda­ríkjunum.

Biden bólusettur í næstu viku

Bólu­setningar hófust í Banda­ríkjunum síðast­liðinn mánu­dag en Trump hafði áður gefið það út að em­bættis­menn yrðu ekki í for­gangi. Það virðist þó ekki hafa náð yfir Pence sem var bólu­settur á­samt vara­for­seta­frúnni Karen Pence og land­lækni Banda­ríkjanna, Jerome Adams, fyrr í dag. Þau munu síðan fá annan skammt af bóluefninu eftir 21 dag.

„Ég fann ekki fyrir neinu. Vel gert, og við erum þakk­lát fyrir þjónustu ykkar í þágu þjóðarinnar,“ sagði Pence eftir bólu­setninguna og hvatti alla Banda­ríkja­menn til þess að láta bólu­setja sig í fram­tíðinni. „Við höfum öll okkar hlut­verk. Leiðin í gegnum þessa krefjandi tíma er ár­vekni og bólu­efni.“

Rétt rúmur mánuður er í að Trump og Pence láti af störfum en þann 20. janúar taka Joe Biden og Kamala Har­ris við sem for­seti og vara­for­seti Banda­ríkjanna. Greint var frá því fyrr í vikunni að Biden yrði lík­lega bólu­settur í næstu viku en ó­víst er hve­nær Har­ris verður bólu­sett.