T-listinn í Flóahreppi fékk tvo menn kjörna síðastliðinn laugardag, Sigurjón Andrésson oddvita og Elínu Höskuldsdóttur. Þegar rýnt var í útstrikanir kom á daginn að 29,4 prósent kjósenda T-listans, alls 38 kjósendur af 129, höfðu strikað yfir nafn Elínar. Hún færðist því niður um sæti og nær ekki kjöri sem fulltrúi.

Margir eru sagðir miður sín í héraðinu vegna niðurstöðunnar en Sigurjón Andrésson í Miðholti, sem leiddi T-listann, segist ekki hafa neina skýringu á takteinum. „Þetta kom okkur mjög á óvart,“ segir Sigurjón.

Árni Eiríksson, sem vann meirihluta í sveitarfélaginu fyrir hinn listann í Flóahreppi sem bauð sig fram, segir: „Það eru margir sem hafa haldið að útstrikanir skiptu litlu máli. En það er augljóslega hægt að senda mjög sterk skilaboð eins og í þessu tilviki.“

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náði Fréttablaðið ekki tali af Elínu.

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að með nýju kosningalögunum sem tóku gildi nú í ársbyrjun, hafi verið teknar upp samræmdar reglur um þingkosningar, sveitarstjórnarkosningar, forsetakosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur.

„Áður höfðu verið sérstök lög um hverja tegund þessara kosninga. Nú gilda sömu reglur um útstrikanir í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna,“ segir Ólafur.

Um frambjóðandann í Flóahreppi sem ekki fékk kjörið sæti vegna margra útstrikana og kemst því ekki inn í sveitarstjórn segir Ólafur að því hafi ranglega verið haldið fram að slíkt hafi aldrei gerst áður. Hann nefnir fjölmörg dæmi um útstrikanir sem höfðu áhrif á öldinni sem leið.

Brynleifur Tóbíasson féll tvisvar sinnum um sæti. Hann var efstur á lista Framsóknarmanna á Akureyri árið 1938 en vegna útstrikana datt hann niður í þriðja sæti og komst ekki inn. Í næstu kosningum, árið 1942, kom hann aftur við sögu, þá efstur á Borgaralistanum á Akureyri, en var strikaður svo mikið út að annar maður listans, Jón Sveinsson, varð eini bæjarfulltrúi listans.

Síðan reglur um vægi útstrikana voru rýmkaðar árið 2000 hefur það gerst fjórum sinnum að sögn Ólafs að frambjóðandi hafi færst niður um eitt sæti vegna útstrikana, alltaf hjá Sjálfstæðisflokknum. Árni Johnsen á það sameiginlegt með Brynleifi forðum að hafa tvisvar færst niður um sæti. Björn Bjarnason einu sinni og Guðlaugur Þór Þórðarson, núverandi ráðherra, einu sinni, árið 2009.

Eftir því sem næst verður komist er kosningin í Flóahreppi söguleg fyrir þær sakir að um fyrstu konuna er að ræða sem missir sæti vegna útstrikana. Ólafur bendir þó á að áður fyrr hafi nánast aðeins karlar verið í framboði.

Sætisröð frambjóðenda á framboðslista og fjöldi kjörinna þingmanna listans hefur áhrif á hve margar útstrikanir þarf til að hrekja frambjóðanda úr sæti sínu.