Samþykkt var að fjölga varaforsetum Alþýðusambands Íslands (ASÍ) úr tveimur í þrjá á 44. þingi sambandsins sem fram fór í dag. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, bauð sig einn fram í kosningu um nýja embættið og var hann því sjálfkjörinn.

Ekki bárust heldur nein mótframboð um embætti forseta ASÍ, 1. varaforseta né 2. varaforseta og eru Drífa Snædal, Kristján Þórður Snæbjarnarson og Sólveig Anna Jónsdóttir því sjálfkjörin í þau embætti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ.

Þá voru ellefu einstaklingar sem kjörnefnd gerði tillögu um, sjálfkjörnir sem aðalmenn í miðstjórn þar sem engin mótframboð bárust.

Þingið fór fram með óvenjulegum hætti að þessu sinni vegna kórónaveirufaraldursins og voru stjórnarmenn valdir á 300 manna fjarfundi.

Vilja hækkun atvinnuleysisbóta

Í ályktun þingsins um vinnumarkaðsmál er þess meðal annars krafist að stjórnvöld beiti ríkisfjármálum í þágu almannahagsmuna og tryggi með aðgerðum að kreppan af völdum COVID-19 skerði ekki afkomu- og húsnæðisöryggi almennings.

Þá krefst þingið þess að grunnatvinnuleysisbætur verði hækkaðar.

„Þingið lýsir yfir áhyggjum af stöðu viðkvæmra hópa sem geta farið sérstaklega illa út úr kreppunni. Ungmennum sem eru hvorki starfandi né í námi hefur fjölgað og hætt er við að heimsfaraldurinn muni auka á þá þróun. Erlent launafólk hefur orðið fyrir þungu höggi á vinnumarkaði og er hlutfall þeirra hátt í röðum atvinnuleitenda,“ segir enn fremur.

Þá áréttaði þing ASÍ að ákvarðaðir sem væru teknar á krepputímum gætu haft úrslitaáhrif til framtíðar.

Þingið er æðsta vald í málefnum ASÍ og fer það fram á tveggja ára fresti. Hvert aðildarfélag sambandsins á rétt á að senda að minnsta kosti einn fulltrúa á þing sambandsins.

Miðstjórn ASÍ 2020-2022 verður skipuð eftirfarandi:

ASÍ: Drífa Snædal, forseti ASÍ
RSÍ: Kristján Þórður Snæbjarnarson, Félag Rafeindavirkja, 1. varaforseti
SGS: Sólveig Anna Jónsdóttir, Efling stéttarfélag, 2. varaforseti
LÍV: Ragnar Þór Ingólfsson, VR, 3. varaforseti

SGS: Hjördís Þóra Sigþórsdóttir, AFL – starfsgreinafélag
SGS: Hörður Guðbrandsson, Verkalýðsfélag Grindavíkur
SSÍ: Valmundur Valmundarson, Sjómannafélagið Jötun
Bein aðild: Guðmundur Helgi Þórarinsson, Félag vélstjóra og málmtæknimanna
SGS: Björn Snæbjörnsson, Eining – Iðja
LÍV: Eiður Stefánsson, Félag verslunar og skrifstofufólks Akureyri
SGS: Finnbogi Sveinbjörnsson, Verkalýðsfélag Vestfirðinga
SGS: Halldóra Sveinsdóttir, Báran - stéttarfélag
Samiðn: Hilmar Harðarson, Félag iðn- og tæknigreina
LÍV: Harpa Sævarsdóttir, VR
LÍV: Helga Ingólfsdóttir, VR