„Sennilega má nú segja að þetta sé með fyrra fallinu til að grípa til þessara aðgerða,“ segir Sumarliði Ísleifsson, dósent í sagnfræði, sem hefur sérhæft sig í verkalýðsmálum um miðlunartillögu Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara í kjaradeilu Samtaka atvinnulífsins og Eflingar. Oft hafi deilan verið gengin lengra, verkföll hafi verið skollin á og hafi staðið yfir í einhvern tíma.

Sumarliði ræddi miðlunartillöguna í sögulegu samhengi í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Ríkis­sátta­semjari ákvað í gær að leggja fram miðlunar­til­lögu í kjara­deilu Eflingar og SA. Aðal­steinn sagði það eina verk­færið sem hann ætti eftir. Ákvörðunin hefur verið ansi umdeild og telja margir Aðalstein hafa gripið inn í allt of snemma.

Miðlunartillagan felur í sér að fé­lags­menn Eflingar og Sam­taka at­vinnu­lífsins munu þurfa að ganga til at­kvæða­greiðslu og er sáttasemjari að taka deiluna af samningaborginu og leggja samning í dóm félagsmanna Eflingar.

Samkvæmt miðlunartillögunni munu félagsmenn Eflingar fá sömu launahækkanir og samið var um við SGS og sömu afturvirku hækkanir frá 1. nóvember.

Ekki mikið sáttahljóð í mönnum

Að sögn Sumarliða eru mörg fordæmi fyrir því að sáttasemjari beiti miðlunartillögu í kjaradeilu. Ákvæðið hafi verið í vinnulöggjöfinni frá 1938 og þegar horft er yfir sviðið sé hægt að sjá að því hafi verið beitt býsna oft.

„Reyndar kannski ekkert svo mjög oft undanfarna áratugi svona hvað varðar hér almennu verkalýðshreyfinguna ef svo má segja. Það hefur oftar verið gert varðandi félög opinberra starfsmanna undanfarna tvo áratugi eða svo,“ segir Sumarliði.

Hann segir vissulega deilur yfirleitt verið gengnar lengra þegar svona tillögu sé beitt og samningaviðræðum lítið miðað áfram. Þá hafi sáttasemjari álitið það skyldu sína að það yrði að fara þessa leið.

„Þannig að sennilega má nú segja að þetta sé með fyrra fallinu að grípa til þessara aðgerða en við erum náttúrulega ekki í þessari stöðu að taka ákvarðanir. Verður að segjast eins og er að þetta lítur ekki vel út. Það er ekki mikið sáttahljóð í mönnum,“ segir Sumarliði jafnframt.

Gagnrýni á sáttasemjara ekki ný

Líkt og fyrr segir hefur ákvörðun sáttasemjara verið ansi umdeild frá því að greint var frá henni í gær og segir Sumarliði þá gagnrýni ekki heldur nýja af nálinni.

„Það hefur komið fyrir áður að ríkissáttasemjari hafi verið skammaður fyrir að grípa inn í og ég sé það að Alþýðusambandið er ekki ánægt með þennan gang mála og það er í rauninni ekki nýtt heldur.“

Sumarliði segir stöðuna erfiða fyrir stórt félag eins og Eflingu þar sem regluverkið í kringum miðlunartillöguna sé þess eðlis að ákveðna þátttöku þurfi fyrir atkvæðagreiðsluna.

„Ef að meirihluti Eflingarfélaga samþykkir þessa tillögu þá myndi ég halda að staða núverandi forystu í Eflingu hún verði frekar erfið. Ef meirihluti vill fella og það yrði mikil þátttaka þá er auðvitað staðan önnur. Það er frekar ljóst að staða Eflingar er snúin bæði í þessari deilu og síðan þá svona með tilliti til samstarfs innan hreyfingarinnar.

Maður sér ekki betur en að Efling sé einangruð og það er ekki svo gott að vita heldur hvernig staðan er innan félagsins það virðist vera órói innan félagsins þannig að þetta er svona opin staða,“ segir Sumarliði og bætir við að erfitt sé fyrir hann að spá nánar um framtíð félagsins.