Dr. Stephen Carver, leiðangursstjóri rannsóknarinnar og framkvæmdastjóri Wild­land Research Institute, segir að jafnvel þótt stærstur hluti kortlagningar fari fram í skjóli skrifstofunnar sé mjög mikilvægt að heimsækja staðina sem verið er að kortleggja til að fá heildræna mynd af svæðinu.

„Ef þú heimsækir ekki svæðið og eyðir tíma þar að skoða í kringum þig þá áttu á hættu að missa af lykilatriðum við landslagið. […] Það skiptir sköpum fyrir gæði kortanna. Ef maður gerir alla vinnuna frá skrifborðinu þá á maður á hættu að gera hrapalleg mistök.“

Kortlagningin sjálf fer fram með því að safna saman stafrænum kortagögnum og gervihnattamyndum og vinna þau í svokölluðu landfræðilegu upplýsingakerfi (e. Geo­graphic information systems). Þessi gögn eru svo notuð til að búa til svokallað óbyggðakort, sem metur gæði óbyggða út frá fjórum meginþáttum: náttúrulegu ástandi landþekjunnar, mannlegum ummerkjum, fjarlægð frá vélvæddri umferð, og því hve torfært svæðið er.

„Reyndar var eitt af því sem við uppgötvuðum í ferðalagi okkar um hálendið að mörg svæðanna, sérstaklega á stöðum eins og Sprengisandi, eru mjög opin og mjög flatlend. Þau eru kannski í mikilli hæð en þau eru alls ekki eitthvað sem við myndum kalla torfær. Þau eru tiltölulega flöt og hæðótt. […] Síðan sameinum við þessa fjóra þætti til að búa til óbyggðakortið,“ segir Stephen.

Dr. Stephen Carver á vettvangi á milli Vonarskarðs og Nýjadals.
Mynd/Aðsend

Ef þú heimsækir ekki svæðið og eyðir tíma þar að skoða í kringum þig þá áttu á hættu að missa af lykilatriðum við landslagið. Það skiptir sköpum fyrir gæði kortanna. Ef maður gerir alla vinnuna frá skrifborðinu þá á maður á hættu að gera hrapalleg mistök.

Skilja frekar línur á korti

Svæðið sem vísindamennirnir byrjuðu á var Vonarskarð norðvestan Vatnajökuls en undanfarinn áratug hafa staðið yfir harðar deilur þar um aðgengi jeppa og náttúruvernd, en árið 2011 var öll vélvædd umferð bönnuð á svæðinu. Að sögn Stephens er aðalmarkmið kortlagningarinnar að meta hver áhrifin yrðu á skarðið ef opnað yrði aftur fyrir umferð jeppa um það.

„Þjóðgarðurinn mun þá verða í betri stöðu til að taka upplýstar ákvarðanir um það. Þeir gætu þá til dæmis lagt fram tillögu að vegurinn yrði ekki enduropnaður af því að það myndi skerða óbyggðir svæðisins í kringum Vonarskarð um 40 prósent. Þannig að þetta er nokkuð mikilvægt, þú getur fært rök fyrir gæðum óbyggða út frá skoðunum, en áður en þú dregur línu á kort og reiknar út tölurnar þá er mjög erfitt að koma með sterk rök til stjórnmálamanna, skipulagsyfirvalda og valdhafa. Stjórnmálamenn skilja tölur en þeir skilja ekki endilega sum rökin fyrir náttúruvernd og líffræðilegri fjölbreytni.“

Stephen segir að óbyggðakortin gætu nýst til þess að endurskilgreina svæði út frá íslenskum náttúruverndarlögum. Náttúruverndarlögin sem samþykkt voru 2013 og tóku gildi 2015 skilgreina níu mismunandi flokka friðlýstra svæða, sem er raðað eftir eðli og verndarstigi og taka mið af kerfi Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN).

„Í gegnum kortlagninguna gætuð þið verið í betri stöðu til að færa rök fyrir því að tiltekið landsvæði ætti heima í flokki Ia, sem tilgreinir náttúruvé, þið gætuð sagt hvaða svæði ætti heima í flokki Ia, sem tilgreinir óbyggð víðerni, eða flokki II, sem tilgreinir þjóðgarða, og líka hvaða svæði ættu ekki að falla þar undir.“

Vísindamennirnir einblíndu á svæði nálægt Vatnajökli í leiðangrinum.
Mynd/Aðsend

Þjóðin þarf að taka lokaákvörðun

Að rannsókn lokinni skrifa vísindamennirnir skýrslu byggða á niðurstöðum kortlagningarinnar, sem Íslendingar geta svo notað til að setja fram nýjar tillögur um verndarsvæðið. Stephen segir að á endanum muni íslenska þjóðin þurfa að taka ákvörðun um hvernig verndun óbyggðra víðerna verður háttað hér á landi.

„Við erum bara einhverjir alþjóðlegir, tæknilegir sérfræðingar. Við erum að útvega upplýsingar sem munu styðja við ákvarðanir sem Íslendingar þurfa að taka. Hvernig þið notið niðurstöður okkar mælinga og korta lendir á herðum þeirra sem hafa ákvörðunarvaldið,“ segir Stephen, en þeir kollegar funduðu með Skipulagsstofnun á föstudag og ræddu hvernig best mætti nota niðurstöðurnar í íslensku samhengi.

Stephen segir þá stefna á að vera tilbúna með kortið af Vonarskarði í október og fleiri svæði á miðhálendinu séu þegar í vinnslu. Þá binda þeir vonir við að hægt verði að útvíkka rannsóknina til að kortleggja allt Ísland síðar meir, en samkvæmt ákvæði í náttúruverndarlögum sem samþykkt var í febrúar á þessu ári er kortlagning óbyggðra víðerna nú lögbundin.

„Vinna okkar á miðhálendinu er í raun hagkvæmniathugun sem mun sýna hvað er mögulegt, ef við myndum svo útvíkka rannsóknina yfir allt Ísland. Við vonumst til að geta tekið þetta lengra með íslenskum kollegum okkar ef við verðum beðnir um það.“

Dr. Stephen Carver ásamt eiginkonu sinni, Helen, og syni þeirra Benjamin.
Mynd/Aðsend

Fengu nýja sýn á landið

Vísindamennirnir segja margt hafa komið sér á óvart við íslenska hálendið. Oliver Kenyon, sem er sérfræðingur í landfræðilegu upplýsingakerfi, lýsir íslensku landslagi sem einstöku og segist hafa fengið nýja sýn á kortlagninguna í vettvangsferðinni.

„Það var fullt af hlutum sem ég hélt að væru mistök en eftir að hafa farið á svæðið þá uppgötvaði ég að nei, þetta er svona í raun og veru. Ísland er mjög ungt og mjög óvenjulegt land. Það er gott dæmi um hversu mikilvægt er að fara á vettvang, því annars dregur maður ályktanir og skilur eitthvað út undan eða reynir að laga eitthvað sem er ekki galli.“

Benjamin Carver, sem er sérfræðingur í rýmisgreiningu, segist hafa verið sleginn yfir því hversu opið og víðáttumikið íslenskt landslag er.

„Ef þú horfir á kort þá færðu ekki tilfinningu fyrir skalanum og víðáttunni sem þú færð þegar þú raunverulega stendur þar. Þú sérð hversu umfangsmiklar fjarlægðirnar eru og hlutfall himinsins og tilfinningin að vera staddur á virkilega afskekktum og sérstökum stað.“

Stephen segist hafa verið agndofa yfir því hversu lík eyðimörk sum svæði miðhálendisins eru.

„Gisinn gróður þar til þú ferð niður á fjóra fætur og sérð litlar plöntur og mosa. Í samanburði við strandlengju Íslands þá er miðhálendið eins og köld eyðimörk. Það kom mér á óvart.“