Sjálfstæðisflokkurinn mælist áfram stærsti flokkur landsins, nú 19,0 prósent, samkvæmt nýrri könnun MMR. Fylgi flokksins minnkar um rúm þrjú prósentustig frá mælingu í júní.

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist í þeirri könnun 40,9 prósent samanborið við 40,2 prósent í könnun júnímánaðar.

Píratar mælast næststærstir, 14,9 prósent, og hélst fylgi þeirra nær óbreytt frá síðustu mælingum. Þá jókst fylgi Miðflokksins um um tæp fjögur prósentustig milli mælinga og mældist nú 14,4 prósent.

Miðflokkurinn mælist því stærri en bæði Samfylkingin, 13,5 prósent, og Vinstri græn, 10,3 prósent. Samfylkingin mældist með 14,4 prósent síðast en Vinstri græn 11,3 prósent.

Fylgi Viðreisnar mældist nú 9,7 prósent og mældist 9,5 prósent í síðustu könnun. Framsóknarflokkurinn mældist nú 8,4 prósent og mældist 7,7 prósent í síðustu könnun.

Fylgi Flokks fólksins mældist nú 4,8 prósent en mældist 4,2 prósent í síðustu könnun. Fylgi Sósíalistaflokks Íslands mældist nú 4,3 prósent en flokkurinn mældist 4,4 prósent í síðustu könnun.

Könnunin var framkvæmd 4. - 17. júlí 2019 og var heildarfjöldi svarenda 2031 einstaklingur, 18 ára og eldri.