Mið­flokkurinn bætir við sig tæpum þremur prósentu­stigum og mælist með næst mesta fylgið í nýrri könnun MMR á fylgi stjórn­má­flokka og stuðning við ríkis­stjórnina. Þetta má sjá í nýrri til­kynningu á vef MMR. Stuðningur við ríkis­stjórnina lækkar lítil­lega, mældist nú 42 prósent en var 43,7 í síðustu könnun.

Sjálf­stæðis­flokkurinn mældist með mest fylgi stjórn­mála­flokka á Al­þingi eða 19,8 prósent. Þá kemur Mið­flokkurinn eins og áður segir og mælist flokkurinn með 14,8 prósent fylgi. Sam­fylkingin fylgir þar á eftir með 14,1 prósent fylgi.

Þá minnkaði fylgi Pírata um rúm­lega þrjú og hálft prósentu­stig á milli kannanna en þeir mælast nú með 8,8 prósenta fylgi og tapa Vinstri-græn einnig 2,2 prósentum og mælast nú með 10,3 prósent.

Við­reisn bætir lítil­lega við sig, mældist áður með 10,2 prósenta fylgi en nú með 11 prósent. Fram­sóknar­flokkurinn dalar og er nú með 10,7 prósenta fylgi en fékk 11,8 síðast. Flokkur fólksins bætir við sig og mælist nú með 5,6 prósent fylgi. Aðrir með minna.

Mynd/MMR