Við berjumst óhikað gegn allri þeirri vitleysu sem er farin að einkenna pólitík samtímans

„Það er alveg skýrt, þetta er skynsemishyggju - rökhyggjuflokkur og fyrir vikið má segja á miðjunni en þróunin í stjórnmálum á Íslandi og reyndar víðar verið þannig að allir aðrir eru einhvern veginn að streyma mjög hratt til vinstri,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins aðspurður um hvar Miðflokkurinn vill staðsetja sig í pólitíkinni, og bætir við að miðjan sé hins vegar á sínum stað og flokkurinn sé fastur fyrir á miðjunni.

Sigmundur Davíð mætir á Fréttavaktina til Sigmundar Ernis í kvöld. Landsfundur Miðflokksins um helgina er að baki en framhald hans verður í ágúst.

Mynd/Hringbraut

Sigmundur Davíð lýsir stöðu Miðflokksins svona í hinu pólitíska sviði:

„Allir hinir flokkarnir eru að fljóta stjórnlaust til vinstri, ég hef notað það líkingamál að mér líður stundum eins og ég og við sitjum á kletti og það kemur flóð, það er flóð í ánni og það flýtur alls kona fólk framhjá á hinum ýmsu fleytum og það er alltaf að gera hróp að okkur á klettinum: „þið eruð að sigla þessum kletti alltof hratt upp ána!“ Af því að menn sjá ekki hvernig eigin staða er að færast. Við fyrir vikið erum bara á okkar stað í miðjunni og byggjum á skynsemi og rökhyggju en berjumst óhikað gegn allri þeirri vitleysu sem er farin að einkenna pólitík samtímans.“