Miðflokkurinn hefur kært framkvæmd nýyfirstaðinna sveitarstjórnarkosninga í Garðabæ. Vísað var til þess í kærunni að kjörseðill hefði verið gerður með því móti að ekki hafi verið gætt jafnræðis í framboðum.

Haraldur Á. Gíslason, umboðsmaður Miðflokksins í Garðabæ, hafði gert athugasemd við hönnun kjörseðilsins fyrr í vikunni. Hann setti út á það að seðillinn hefði tvíbrotinn saman en ekki brotinn til helminga. Endi seðilsins með lista Miðflokksins hefði verið brotinn sér þannig að hann sæist ekki nema maður opnaði seðilinn alveg.

Haraldur lýsti því yfir á þriðjudaginn að þessum annmarka yrði ekki fylgt eftir, enda hefði Miðflokkurinn ekki verið nálægt því að ná inn manni. Flokkurinn fékk um 3,6 prósent atkvæða í sveitarfélaginu. Nú virðist flokknum hafa snúist hugur og hefur kæra verið lögð fram til úrskurðanefndar kosningamála. Yfirkjörstjórn Garðabæjar hefur verið veittur frestur til þriðjudags til að veita umsögn um kæruna.

„Forsenda þess að fólk geti gengið að kjörborðinu með sanngirni og réttlæti að leiðarljósi.“

Lárus Guðmundsson, oddviti Miðflokksins í Garðabæ.
Mynd/Aðsend

Lárus Guðmundsson, oddviti Miðflokksins í Garðabæ, segir að fyrri ummæli Haraldar um að málinu yrði ekki fylgt eftir hafi verið borin fram án samráðs við framkvæmdastjórn flokksins. „Framkvæmdastjórn flokksins var einróma á því að fara með þetta í kæru.“

Lárus segir jafnframt óásættanlegt að ekki hafi verið gætt jafnræðis við framkvæmd kosninga og birtingu kjörseðilsins. „Þetta var hróplegt ósamræmi í þessum kjörseðli og ég hefði gjarnan vilja vitað það ef þetta hefði farið á hinn veginn, ef það hefði verið brotið gegn D-listanum. Það verða allir að sitja við sama borð, það gengur ekki að einn flokkur lendi undir flipa. Þetta vafðist fyrir mörgum. Kjörseðillinn á alltaf að vera einfaldur og öllum auðskiljanlegur. Það er bara forsenda þess að fólk geti gengið að kjörborðinu með sanngirni og réttlæti að leiðarljósi. Framkvæmdaaðilar kosninga verða einfaldlega að vanda betur til verka.“

Í kæru flokksins til Úrskurðarnefndar kosningamála benti flokkurinn á að samkvæmt könnunum hafi margir kjósendur verið óákveðnir og hafi margir jafnvel gert upp hug sinn í kjörklefanum. Í kærunni eru færð rök fyrir því að annmarkinn á kjörseðlinum hafi haft áhrif á gengi Miðflokksins í Garðabæ, enda hafi niðurstöður flokksins verið mun hagstæðari í talningum atkvæða sem bárust eftir að bætt hafði verið úr honum:

„Í fyrstu og öðrum tölum mældist Miðflokkurinn samtals með 3,3% en í lokatölum eftir að verklagi hafði verið breytt mældist flokkurinn með 4,6%. Nú er ekki hægt að fullyrða hvort þetta sé tilviljun eða ekki en ljóst er að jafnræði var ekki viðhaft þegar sum framboð eru auðsjáanleg á kjörseðli en önnur ekki. Einnig er ljóst að einungis var 7 atkvæða munur hver væri 11. maður inn í bæjarstjórn Garðabæjar og má því ljóst vera að þessir annmarkar gætu hæglega hafa haft áhrif á úrslit kosninganna.“