Önnur um­ræða um frum­varp Katrínar Jakobs­dóttur, for­sætis­ráð­herra, um kyn­rænt sjálf­ræði fór fram á Al­þingi í dag en frum­varpið snýr að því að lækka aldursvið­mið vegna réttar til að breyta skráningu kyns.

Þing­menn Mið­flokksins fóru mikinn í gagn­rýni sinni og töluðu Birgir Þórarins­son og Karl Gauti Hjalta­son meðal annars að með frum­varpinu væri verið að „fórna“ orðinu móðir úr ís­lenskri tungu. Þór­hildur Sunna Ævars­dóttir, þing­maður Pírata, kom því hins vegar á fram­færi að orðið móðir væri ekki á förum úr ís­lenskri tungu.

„Þegar ég sá þetta frum­varp fyrst þá komu mér í huga orð predikarans hans þegar hann segir að allt sé hégómi og ekkert sé nýtt undir sólinni, að rífa niður hefur sinn tíma,“ sagðir Birgir á Al­þingi í dag.

„Eitt er víst að ekkert kemur manni lengur á ó­vart í ríkis­stjórn Sjálf­stæðis­flokks, Fram­sóknar og Vinstri grænna og maður spyr sig, herra for­seti: Hvað verður það næst? Já, næst verður það væntan­lega frum­varp frá Sjálf­stæðis­flokknum sem eitt sinn var í­halds­flokkur. Frum­varp um að breyta fal­legasta orð ís­lenskrar tungu, ljós­móðir í ljós­manneskja,“ sagði hann enn fremur.

Hér er ekki verið að fórna orðinu móðir

Þór­hildur Sunna svaraði Birgi með því að hann þyrfti ekki að óttast um að orðið móðir eða ljós­móðir væri á förum.

„Ég mátti til með að koma hérna upp og stað­hæfa að hér sé ekki verið að fórna orðinu móðir. Það mun á­fram vera í okkar tungu­taki og það mun á­fram vera til­tækt til notkunar eins og ég hef notað í þessari ræðu hér, móðir. Það er enn til staðar,“ sagði Þór­hildur.

„Þetta er á­kveðin praktísk breyting sem felst í því að við erum að heimila fólki að breyta skráningu sinni,“ sagði hún enn fremur og benti jafn­framt á að málið sneri um að á­kvæði t.d. hegningar­laga nái um alla á Ís­landi jafnt.

„Þetta eru ein­fald­lega praktískt úr­lausn úr­lausnar­efni. Engin at­laga að okkar tungu­máli og mæður verða hérna á­fram.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Við skulum ekki fórna orðinu móðir „fyrir öfga“

Karl Gauti gekk lengra en Birgir í sínu máli og sagði frum­varpið vera at­laga að fjöl­mörgum ís­lenskum orðum. Honum fannst samt einnig verst að orðið móðir yrði tekið út úr hegningar­lögunum,

„Við greiðum hér at­kvæði um frum­varp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um kyn­rænt sjálf­ræði. Þar er um að ræða að hreinsa út úr ýmsum lögum orð eins og karl, kona, barn, kvæntur maður og gift kona, fað­erni og móðerni móðir, kven­maður, eigin­kona, eigin­maður sam­búðar­konu sam­búðar­maður,“ sagði Karl Gauti.

„Sér­stak­lega þykir mér fara illa á því að taka út orðið móðir í nokkrum greinum hegningar­laga, orð sem er rót­gróið í vitund lands­manna og eru í flestum til­fellum í hegningar­lögunum haft um mann­eskju sem elur barn, þá mann­eskju sem ber barn undir belti og ég get hrein­lega ekki séð hverju skiptir í því sam­bandi hvaða skráning á vegum þá mann­eskju eða hvaða kyn­færi mann­eskjurnar líta út,“ sagði hann enn fremur.

„Manneskjan er verðandi móður ef hún ber barn undir belti og móðir þegar hún fæðir barn. Orðið móðir er fal­legt og lýsandi ís­lenskt orð og við skulum ekki fórna því fyrir öfga,“ sagði Karl Gauti.

Al­þingi sam­þykkti frum­varp um kyn­rænt sjálf­ræði í júní 2019. Meðal réttinda sem það kveður á um er réttur ein­stak­linga til að á­­kveða sjálfir hvernig kyn þeirra er skil­­greint í þjóð­­skrá.

Frum­varpið sem nú er rætt á Al­þingi sný er að því að aldur vegna réttar til að breyta opin­berri skráningu kyns, og sam­hliða breyta nafni, miðist við 15 ára aldur í stað 18 ára aldurs. Þá er gert ráð fyrir því að börn yngri en 15 ára geti breytt opin­berri skráningu kyns síns með full­tingi for­sjár­aðila sinna.