„Bára og hennar stuðningsfólk hafa skilið þetta þannig að réttast sé að bíða með að tjá sig um niðurstöðuna fram að birtingu, þegar öll gögn eru komin fram opinberlega,“ segir Halldór Auðar Svansson, sem talar fyrir hönd Báru á Facebook hópnum Takk Bára. Halldór segir Miðflokksmenn hafa lekið úrskurði Persónuverndar þrátt fyrir að gögn eiga ekki að vera birt opinberlega fyrr en á morgun, fimmtudaginn 23. maí. Halldór segir Miðflokksmenn hafi þannig náð að spinna úrskurðinn í óhag Báru. Það hafi verið fyrstu upplýsingarnar sem birtar voru, en ekki úrskurðurinn um að Bára hafi ekki verið með samverknað þegar það kom að hljóðupptökunum eins og Miðflokksmenn sökuðu hana um.

Spunnið í óhag Báru

„Nú ber hins vegar svo undir að Viljinn birtir frétt um niðurstöðuna þar sem henni er spunnið mjög Báru í óhag. Þetta hafa aðrir fjölmiðlar verið að taka upp og þessu hefur verið deilt á síðum Miðflokksins. Ekki var það Bára eða hennar fólk sem lak niðurstöðunni til Viljans. Það er því ákvörðun Miðflokksmanna að bíða ekki til morguns heldur að leka strax út á sínum forsendum, rjúfa þannig grið. Við hin hljótum því að mega bregðast við strax,“ skrifar Halldór Auðar Svansson fyrir hönd Báru á Facebook hópnum Takk Bára.

Enginn „samverknaður“ af hálfu Báru

Halldór segir Persónuvernd hafa fallist á rök Báru að vinnslan á upptökunni hafi verið í þágu fjölmiðlunar. Þá sé viðurkennt að upptakan hafi verið tilefni til mikillar umræðu um háttsemi þjóðkjörinna fulltrúa. Ekki hafi verið fallist á ásakanir Klaustursmanna um að Bára hafi átt í samsæri við aðra aðila.

„Bára hefur frá upphafi lagt áherslu á að hún myndi una niðurstöðu Persónuverndar hver sem hún yrði. Það var mikilvægt að fá á hreint hvað er leyfilegt lagalega séð og hvað ekki í þessum efnum. Hvar mörk persónuverndar og tjáningarfrelsis liggja og hvað er leyfilegt þegar kemur að aðhaldi almennings gagnvart valdhöfum.“

Athugasemd um lengd upptökunnar

„Hins vegar gerir Persónuvernd athugasemd við lengd upptökunnar og fellir hana þar af leiðandi undir ákvæði um rafræna vöktum, sem leiðir til þess að upptakan hafi brotið gegn lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Báru er þannig gert að eyða upptökunni, sem hún fellst að vitaskuld fúslega á að gera. Bára axlar ábyrgð á þessu sem og upptökunni almennt, enda kaus hún sjálf að stíga fram til að axla ábyrgð,“ skrifar Halldór.

„Sú spurning vaknar hins vegar hvort að Klausturþingmenn verði ekki að deila ábyrgðinni á lengd upptökunnar með Báru, enda tók það þá töluverðan tíma að fara yfir ýmis mikilvæg atriði á borð við níðyrði um vinnufélaga sína, samferðafólk sitt og hina og þessa minnihlutahópa. Einnig tók það tíma að útlista nákvæmlega hvernig fyrrum ráðherrar stóðu að hrossakaupum með sendiherrastöður.“