Félagsmenn Miðflokksins felldu tillögu uppstillinganefndar um framboðslista í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir komandi Alþingiskosningar. Tillagan fól í sér að Fjóla Hrund Björnsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Miðflokksins, yrði oddviti í stað Þorsteins Sæmundssonar alþingismanns.
Viljinn greindi fyrst frá þessu. Þar segir að sjaldgæft sé að tillögur sem þessar séu felldar, í þessu tilfelli hafi tillagan verði felld af stuðningsmönnum Þorsteins. Þá telji meðlimir flokksins í kjördæminu að uppstillinganefndin njóti vart trausts eftir þetta.
Skýr áhugi um breytingar
Fjóla Hrund segir í samtali við Fréttablaðið að hún viti ekkert um framhaldið. „Það sem að gerist er að uppstillinganefnd kemur fram með ákveðinn lista. Það var skýr áhugi meðal flokksmanna að það yrðu breytingar,“ segir Fjóla.
„Þarna var kynntur nýr öflugur listi en sitjandi oddviti fór þá leið að fella listann, sem er afar sjaldgæft.“ Á hún von á því að staðan skýrist á næstu dögum.
Ekki náðist í Þorstein Sæmundsson við vinnslu fréttarinnar.