Stuðningsfólk Miðflokksins er spenntast fyrir skötuáti en fæstir þeirra sem kjósa Pírata. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR.
Annað árið í röð er Þorláksmessa haldin í skugga Covid-19 og meðfylgjandi samkomutakmarkana. Það hefur sín áhrif á skötuátið.
Einungis 30 prósent svarenda segjast ætla að gæða sér á skötu á Þorláksmessu þetta árið, sama hlutfall og í fyrra. Áður en faraldurinn hófst hafði skötuátið haldist stöðugt í 35 til 38 prósentum á árunum 2014 til 2019.
Helmingur 68 ára og eldri ætla að fá sér skötu í dag og fjölgar um sex prósentustig milli ára.

Aðeins 17 prósent þeirra sem yngri eru, á aldrinum 18 til 29 ára, ætla að gæða sér á skötu. Fjórðungur svarenda 30 til 49 ára kvaðst ætla að fá sér skötu.
Líkt og verið hefur í fyrri könnunum eru karlar líklegri til að skella sér í skötu, 37 prósent á móti 23 prósentum kvenna.
Landsbyggðin hrifnari af skötu
Mikill munur er á svörum eftir búsetu. Af þeim sem búa á landsbyggðinni ætla 38 prósent að borða skötu en fjórðungur þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu.
Það munar miklu eftir því hvaða stjórnmálaflokk fólk styður. Stuðningsfólk Miðflokksins bar af í skötuást sinni þetta árið en heil 46 prósent þeirra kváðust ætla að borða skötu á Þorláksmessu. Næst kom stuðningsfólk Framsóknarflokksins, 38 prósent, Sjálfstæðisflokksins, 35 prósent, Vinstri grænna, 33 prósent, og Flokks fólksins, 31 prósent.
Af þeim sem styðja aðra flokka er minni stemning fyrir skötunni og af stuðningsfólki Viðreisnar ætla 26 prósent að leggja sér skötu til munns, 24 prósent stuðningsfólks Samfylkingar og 22 prósent Pírata.
Könnunin var framkvæmd dagana 13. til 20. desember 2021 og var heildarfjöldi svarenda 2.051 manns, 18 ára og eldri.
