Stuðnings­fólk Mið­flokksins er spenntast fyrir skötu­áti en fæstir þeirra sem kjósa Pírata. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR.

Annað árið í röð er Þor­láks­messa haldin í skugga Co­vid-19 og með­fylgjandi sam­komu­tak­markana. Það hefur sín á­hrif á skötu­átið.

Einungis 30 prósent svar­enda segjast ætla að gæða sér á skötu á Þor­láks­messu þetta árið, sama hlut­fall og í fyrra. Áður en far­aldurinn hófst hafði skötu­átið haldist stöðugt í 35 til 38 prósentum á árunum 2014 til 2019.

Helmingur 68 ára og eldri ætla að fá sér skötu í dag og fjölgar um sex prósentu­stig milli ára.

Helmingur 68 ára og eldri ætla að fá sér skötu í dag og fjölgar um sex prósentu­stig milli ára.

Að­eins 17 prósent þeirra sem yngri eru, á aldrinum 18 til 29 ára, ætla að gæða sér á skötu. Fjórðungur svar­enda 30 til 49 ára kvaðst ætla að fá sér skötu.

Líkt og verið hefur í fyrri könnunum eru karlar lík­legri til að skella sér í skötu, 37 prósent á móti 23 prósentum kvenna.

Lands­byggðin hrifnari af skötu

Mikill munur er á svörum eftir bú­setu. Af þeim sem búa á lands­byggðinni ætla 38 prósent að borða skötu en fjórðungur þeirra sem búa á höfuð­borgar­svæðinu.

Það munar miklu eftir því hvaða stjórn­mála­flokk fólk styður. Stuðnings­fólk Mið­flokksins bar af í skötu­ást sinni þetta árið en heil 46 prósent þeirra kváðust ætla að borða skötu á Þor­láks­messu. Næst kom stuðnings­fólk Fram­sóknar­flokksins, 38 prósent, Sjálf­stæðis­flokksins, 35 prósent, Vinstri grænna, 33 prósent, og Flokks fólksins, 31 prósent.

Af þeim sem styðja aðra flokka er minni stemning fyrir skötunni og af stuðnings­fólki Við­reisnar ætla 26 prósent að leggja sér skötu til munns, 24 prósent stuðnings­fólks Sam­fylkingar og 22 prósent Pírata.

Könnunin var fram­kvæmd dagana 13. til 20. desember 2021 og var heildar­fjöldi svar­enda 2.051 manns, 18 ára og eldri.

Karlar eru lík­legri til að skella sér í skötu, 37 prósent á móti 23 prósentum kvenna.