Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 22. janúar 2021
23.00 GMT

Þegar við náum tali af Andreu er hún í óðaönn við að undirbúa Viðurkenningarhátíð FKA sem fram fer í næstu viku og þrjár konur verða heiðraðar. Hún segist njóta sín vel í starfi framkvæmdastjóra Félags kvenna í atvinnulífinu, sem sé þó svolítið eins og að fá sér sopa úr brunahana, eins og hún orðar það á sinn einstaka hátt.

Andrea hefur sinnt fjölbreyttum ábyrgðarstöðum á starfsferli sínum, meðal annars sem mannauðsstjóri RÚV og framkvæmdastjóri. Haustið 2019 tók hún við framkvæmdastjórastöðu hjá FKA og hefur svo sannarlega látið að sér kveða.

„Ég og við allar stöndum á öxlum kvenna sem hafa á undan okkur gert stórkostlega hluti og ég finn að ég er að taka við mjög góðu búi frá bæði Hrafnhildi Hafsteinsdóttur og Huldu Bjarnadóttur sem voru hér áður,“ útskýrir hún.

„Ég var sjálf áskrifandi hjá FKA í mörg ár, en hafði ekkert endilega verið svo virk. En nú þegar ég er komin í þessa stöðu og er að hvetja konur til að taka þátt í starfinu, sé ég það skýrt að þegar konu líður eins og hún hafi sem minnstan tíma fyrir sjálfa sig, þá er mesta þörfin á að gefa sér leyfi, setja sig á dagskrá og fjárfesta í sér.“

Losnar ekki við kynjagleraugun

Andrea hefur frá því hún tók við starfinu sannarlega fjárfest í sjálfri sér og um leið félagskonum sínum, en allir sem fylgjast með Andreu sjá að hún brennur fyrir hvoru tveggja.

„Það er talað um að það sé allt ógeðslega gaman sem þú kannt og mér finnst ógeðslega gaman í þessari vinnu. Það er ákveðinn þráður í því sem ég hef verið að gera, eftir að ég kláraði kynjafræðina,“ segir Andrea, sem lauk námi í félags- og kynjafræði frá Háskóla Íslands árið 2002 og síðar meistaragráðu frá viðskipta- og hagfræðideild í mannauðsstjórnun og MA-diplómu í jákvæðri sálfræði.

„Síðan þá hef ég verið með kynjagleraugun á mér og þú losnar ekkert við þau. Þú losnar ekkert heldur við grænu umhverfisgleraugun þegar þau eru komin á. Því er svo mikilvægt að koma þessum gleraugum á fólk. Með þau uppi viltu jafna hlut kynjanna og skapa betri heim fyrir komandi kynslóðir sem eru að fara að erfa jörðina. Mér finnst þetta allt haldast í hendur.“

Andrea segist mjög upptekin af virði starfa. „Mér finnst ofsalega gaman að fólk sem passar peningana okkar fái himinhá laun en finnst klárlega að fólkið sem passar börnin okkar ætti líka að fá mjög góð laun.

„Starf framkvæmdastjóra FKA er fjölbreytt, krefjandi og gefandi og akkúrat starf fyrir mig. Ég fæ mikla orku út úr því að þjónusta atvinnulífið og finna að FKA hefur vigt og skiptir máli. Við erum búin að setja okkur háleit markmið um að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna árið 2030 og það er eftir korter svo við þurfum virkilega að fara að græja okkur í takt við nýja tíma með fjölbreytileika, samtali og nýsköpun.“


Hoppað upp um nokkur borð

Andreu er tíðrætt um þau tímamót sem við nú stöndum á, þegar heimurinn þurfti vegna heimsfaraldurs að skipta um takt.

„Ég vona bara að við notum þennan tímapunkt til að gera eitthvað magnað. Ekkert er hafið yfir gagnrýni en við höldum að sjálfsögðu áfram að nýta tæknina eftir að hafa hoppað upp um nokkur borð. Í mínu starfi höfum við þurft að endurhugsa allt og vera skapandi og tæknin hefur fært félagskonur af landinu öllu nær hverri annarri. Það þýðir til dæmis minni sóun á tíma, því fylgir svo enginn pappír og það er enginn að keyra, svo þetta er mjög umhverfisvænt. En þegar við erum búin að láta sprauta okkur þá auðvitað förum við líka að hittast í raunheimum og einfaldlega gera bæði. Þetta er kafli og reynir á úthaldið, það er bara þannig.

Mér finnst svo líka mjög sniðugt að vera ekki að skottast á tveggja tíma fund úti í heimi. Frekar ferðast með sínum nánustu í núvitund og taka inn menninguna og vera ekki á öllu þessu flandri sem er bara fyrir umhverfissóða.“


„Frekar ferðast með sínum nánustu í núvitund og taka inn menninguna og vera ekki á öllu þessu flandri sem er bara fyrir umhverfissóða.“


Andrea bendir á fleiri kosti fjarfundanna en síðasti aðalfundur FKA var sannarlega með öðru sniði en árin á undan.

„Aðalfundurinn var á netinu og þar var ein á spítala, ein í fæðingarorlofi og ein föst í skafli en við vorum þarna allar mættar til að kjósa rafrænt og í massa fíling svo þetta er alveg komið til að vera. Það má því tala þetta upp, hversu grænt þetta er og í þessu felst svo mikið jafnræði.“


Rúntaði með Vigdísi og biskupi


Andrea man ekki eftir öðru en að hafa verið jafnréttissinni og er einn stofnfélaga Femínistafélags Íslands sem stofnað var árið 2003. Hún segir þó að kynjafræðinámið hafi breytt öllu.

„Kynjafræðin gaf mér öll orðin sem ég hafði ekki fundið yfir hringrás ósýnileika kvenna og margt sem við höfum verið að upplifa. Kynjafræðin er þverfagleg og ég hafði ekki hugmynd þá um að hún og hinseginfræðin sem ég tók sem valfag, myndu nýtast mér svona vel í starfi, sem mannauðsstjóri RÚV og framkvæmdastjóri einhvers staðar úti í bæ. Þetta varðar okkur öll.“

Andrea var fimm ára gömul þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands, fyrst kvenna í heiminum.

„Það skipti máli að Vigdís Finnbogadóttir hafi verið forseti þegar ég var að alast upp og að hafa þessar örfáu kvenkyns fyrirmyndir til að máta sig við.“

Þegar talið víkur að Vigdísi rifjast upp fyrir Andreu saga frá liðnu ári. Frá einum skemmtilegasta degi lífs hennar, eins og hún sjálf orðar það.

„Ég var ráðstefnustjóri í hátíðarsal Háskóla Íslands þar sem Vigdís var einn gesta, en ég verð alltaf „starstruck“ þegar ég hitti hana.“ Að ráðstefnu lokinni spyr Andrea, Vigdísi hvort hún megi ekki skutla henni heim.

„Hún þiggur það og þegar ég sé biskup Íslands standa þarna rétt hjá spyr ég hana hvort hún vilji ekki líka far og hún segir já. Við röltum því út á bílaplan þar sem ég svo færi íþróttatöskuna til í aftursætinu svo biskupinn fái pláss þar og Vigdís sest fram í. Svo þar sem ég er að keyra, með Vigdísi við hlið mér og Agnesi biskup í aftursætinu hugsa ég með mér: „Hvar annars staðar en á Íslandi er maður að skutlast með íþróttatöskuna, biskupinn og frú Vigdísi?“ segir Andrea og hlær. „Þetta er svo séríslenskt og geggjað. Þetta var það sérstök stund fyrir mér að ég tók ekki einu sinni „selfie,“ ég vildi bara taka þessa stund inn í núvitund.“


„Svo þar sem ég er að keyra, með Vigdísi við hlið mér og Agnesi biskup í aftursætinu hugsa ég með mér: „Hvar annars staðar en á Íslandi er maður að skutlast með íþróttatöskuna, biskupinn og frú Vigdísi?“


Andrea ráðstefnustjóri í Hátíðarsal HÍ „Auðvitað er gaman að lenda félagsskap í raunheimum eins og þegar ég var ráðstefnustjóri með landslið brautryðjenda í salnum eins og myndin ber með sér.“ Mynd/aðsend

Andrea segist þakklát fyrir margt það sem við búum við hér á landi.

„Eins og til að mynda þegar ég fer í sund og forsetinn er þar að synda, og svo fer hann að plokka rusl. Prófum að bera þetta saman við Bandaríkin í dag. Það er svo margt að þakka fyrir á Íslandi.“


Ein í bakpokaferðalag


Árið 2006 tók Andrea stóra ákvörðun, hún seldi íbúð sína og bíl og hélt í bakpokaferðalag um Suðaustur-Asíu, ein. „Sú reynsla hefur hjálpað mér mikið, eins og upp á menningarlæsi. Þar var mikill auður og mikil eymd,“ segir Andrea og kemur aftur að þakklætinu sem hún er dugleg að iðka.

„Ég er til að mynda þakklát fyrir persónulegt rými, eftir að hafa farið í hraðbanka á Indlandi þar sem það er alltaf einhver andandi ofan í hálsmálið á manni. Því er ég þakklát fyrir að geta farið í gönguskó og gengið út með allan þennan radíus af engu. Það er geggjað við Ísland,“ segir Andrea, sem nýtir hvert tækifæri til að ganga á fjöll.

Táknræn keðja var mynduð á Opnunarviðburði FKA þegar félagskonur gengu Búrfellsgjánna og beindu kastljósinu að nýrri nefnd, New Icelanders FKA.

Ákvörðunina um að fara þrítug, ein, í þriggja mánaða ferðalag um Asíu segir Andrea hafa komið til sín.

„Ég hef stundum orðað tilfinninguna þannig að ég var komin með ógeð af eik og burstuðu stáli, það var allt eins. Þegar lífið er orðið svona litlaust þá er mikilvægt að brjóta hlutina upp og þegar ég kom heim langaði mig að mála alla veggi í litum. Í dag er þetta þannig að ef ég finn að ég er orðin vanþakklát, til dæmis fyrir að komast í sturtu á morgnana, er tími fyrir mig kominn að lesa einhverja bók eða fara í einhverjar æfingar. Á Indlandi mátti maður ekki bursta tennurnar með kranavatninu því þá fékk maður ræpu,“ segir hún í léttum tón.

Andrea segist fyllilega mæla með því að verja slíkum tíma með sjálfri sér, en bloggfærslur Andreu frá ferðinni enduðu í útgefinni bók.„Forlagið gaf út bókina og hún varð öðrum hvatning til að ferðast og fullt af fólki hafði samband við mig og þakkaði mér fyrir að hafa þannig víkkað sjóndeildarhring þess.

Þegar fólk sækir um vinnu hjá mér þá skoða ég hvort fólk hafi ferðast, farið sem skiptinemi, stofnað fyrirtæki og þar fram eftir götunum. Óvanalegt finnst mér þægilegt. Ég nefnilega elska fólk sem er til í að gera eitthvað óvanalegt. Þess vegna hef ég svo gaman af því að hlusta á Ted-fyrirlestra. Þar getur maður hlustað á sögur fólks sem er með kúlu á hausnum því það er að gera tilraunir,“ segir Andrea uppveðruð.


Vill varpa ljósinu á konur


Eins og fyrr segir er Andrea dugleg að klappa fólk upp og benda á það sem vel er gert, meðal annars í gegnum samfélagsmiðla, ekki síst konur.

„Ég hitti allt of mikið af konum sem hafa ekki hugmynd um hvað þær eru geggjaðar. Og ég vil hvetja þær markvisst áfram og hef einlægan metnað fyrir hönd þeirra. Fyrir mörgum árum þegar snjallsímar komust í tísku byrjaði ég að taka myndir af konum sem voru að gera eitthvað spennandi en í svona óuppstilltum aðstæðum. Ég fór að mynda konur sem ég þekkti kannski ekki mikið að halda erindi, labba með börnin sín eða hvað sem er, og svo sendi ég þeim myndirnar eða póstaði þeim á samfélagsmiðlum og taggaði þær. Mig langar að varpa ljósi á konur og ólíka hluti sem þær taka sér fyrir hendur í leik og starfi.“


„Ég hitti allt of mikið af konum sem hafa ekki hugmynd um hvað þær eru geggjaðar. "


„Hinn gullni meðalvegur kalla ég þessar tvær því við erum ólíkar en jafn góðar," segir Andrea sem er hér ásamt Huldu Ragnheiði Árnadóttur formanni FKA. Mynd/aðsend

Tengslanet kvenna er Andreu hugfólgið. „Ég tala um að ég sé Andrea í netagerðinni, tengslanetagerðinni, og ég þreytist ekki á að segja fólki að hafa samband við bara hvern sem er, því yfirleitt er fólk bara rosalega til í að eiga samtalið og miðla. Og það er mikilvægt að hafa ekki bara samband við fólk þegar maður þarf eitthvað. Mér finnst það oft lykillinn að tengslum.

Ég fyllist orku við að upplifa töfra tengslanetsins og er líka að reyna að hvetja konur til að kynnast því. Við þurfum að þekkja konur til að mæla með konum, ráða, kjósa og versla við konur og tengslanetið verður ekki til af sjálfu sér. Eins og í FKA verður hver og ein félagskona að ákveða hvað þær vilja gefa FKA og fá til baka, en FKA er klárlega staðurinn til að stækka netið sitt.

Ég hvet konur til að senda póst á konuna sem var flott í viðtalinu, kveðju á konuna sem stendur í stormi, eða hringja í konuna og hvetja hana til að sækja um stöðuna. Hún þarf kannski einmitt bara hvatningu frá þér. Þannig verðum við alvöru hreyfiafl.“


Nóg sól fyrir okkur öll


Andrea bendir á að enn sé langt í land að kynjahlutföll í efsta stjórnendalagi verði jöfnuð. „„Good enough“ er góð mantra fyrir konur. Við erum oft ekki nógu kærulausar og fullkomnunarárátta getur verið hamlandi. Oft tengist þetta uppeldinu, en nú er lag að taka ákvörðun um að gefa komandi kynslóðum og öllum kynjum sæti við borðið. Hafa líka svolítinn húmor fyrir sjálfum sér.“


„„Good enough“ er góð mantra fyrir konur. Við erum oft ekki nógu kærulausar og fullkomnunarárátta getur verið hamlandi."


Ég er kannski, og örugglega, haldin einhverri forréttindablindu, en ég trúi því að ef þú ert í ákveðinni stemningu og velvild sjáirðu að það er nóg sól fyrir okkur öll.


Ég finn ekkert annað en hvatningu í því að öðrum gangi vel en öfund er tilfinning sem ég hef fundið fyrir en það var þegar ég var unglingur. Ég hef ekki fundið hana síðan og það er kannski ástæðan fyrir því að ég vil ekki verða unglingur aftur,“ segir Andrea og skellir upp úr. „Mig langar hvorki að upplifa unglingaveiki né klæðast magabol.“

Gott stöff að eldast


Talandi um aldur þá fagnar Andrea hækkandi aldri.

„Ég er svo ótrúlega sátt við að eldast, finnst það svo gott stöff. En hvað þýðir það að vera á besta aldri? Nú er oft talað um að 60 sé nýja 40 og ég er að tengja við þetta. Ég held að fyrir konur sé tíminn í kringum fimmtugt besti tími lífsins. Auðvitað er mikilvægt að huga að heilsunni til að svo verði, en ef allt gengur vel ætti þetta að geta verið besti tími lífsins.

Þegar ég hef verið að ráða starfsfólk hefur mér fundist miðaldra og meiriháttar konur frábærir starfskraftar. Þessar konur hafa auðvitað verið að verkefnastýra heimilinu, með allt þetta svokallaða „mental load“ hangandi yfir sér um árabil. Þetta eru konur sem eru búnar að skapa sig, og hafa núna tíma til að endurskapa sig og búa yfir mikilvægri reynslu og menntun.

Við erum farin að lifa lengur og eigum að fagna öllum fjölbreytileika og huga að þessari blöndun þegar við mætum nýjum veruleika. Það meikar engan sens að farið sé að slá í ákveðnar kennitölur. Við þurfum að tryggja að hópar reynslumikilla kvenna upplifi tækifæri, virði og tilgang. Við þurfum að setja konur á dagskrá,“ segir hún ákveðin.


„Nú er oft talað um að 60 sé nýja 40 og ég er að tengja við þetta. Ég held að fyrir konur sé tíminn í kringum fimmtugt besti tími lífsins. "


Andrea bendir þó jafnframt á að sem hluta af fjölbreytileikanum verðum við að gefa körlum meira tækifæri á að vera heima og kynnast börnunum sínum án þess að upplifa að þeir séu að taka niður fyrir sig.

„Það er mikilvægt að fjarlægja þá frá öllu þessu gefna líka, þeir verða líka að hafa þetta frjálsa val. Þeir eru líka að klepra á mýtum og kröfum og óraunhæfu rugli.“

Ég fæ bara sviðið núna


Andrea er í sambúð með Jóni Þóri Eyþórssyni framkvæmdastjóra, og eiga þau saman tvo syni.

„Samkvæmt rannsóknum eru heimilisstörfin enn þann dag í dag mikið á herðum kvenna. Persónulega er ég ekki að tengja við það, enda maðurinn minn mikið í 21. öldinni.

Nú hefur verið mikið að gera hjá mér í nýju starfi og hann hefur á meðan borið mestan þungann af verkefnum heimilisins. Hann er meistarakokkur og les matreiðslubækur og prófar sig áfram á meðan ég sé um það sem ég lærði í Húsmæðraskólanum, slátur, grjónagraut og svo framvegis. Fyrir strákana er mikilvægt að sjá fyrirmynd í föður sínum sem gengur í öll verk.“

Andrea bendir á að áður hafi verið meiri álagstímar hjá honum í starfi og hún séð um stóran hluta reksturs heimilisins.

„En nú ákvað ég að setja mig á dagskrá og við erum bæði mega sátt við það. Ég fæ bara sviðið núna og við vinnum þetta saman. Það er oft einhver heima að verkstýra heimilinu á meðan fólk gegnir stjórnunarstöðum út og suður, það er oft ólaunað starf kvenna í kynjuðum heimi. Og ég segi: „Fálkaorðu á einstæða foreldra.“ Ég er þó ekkert komin í híði og kenndi yngri drengnum til dæmis að blása tyggjókúlu í fyrradag,“ segir hún og hlær. „Það er bara svo frábært að við höfum jöfn tækifæri og getum tekið tarnir til skiptis. Þetta snýst alltaf um jafnvægi.“

Andrea segir að enn hringi læknir drengjanna fyrst í hana: „Það er margt kynjað á meðan veröldin vendist og snýst. Þegar ég starfaði hjá Hjallastefnunni tókum við ákvörðun um að hringja alltaf fyrst í pabbann ef eitthvað kom upp. Þetta þótti mjög framúrstefnulegt. En þetta gerist ekki af sjálfu sér. Stundum þarf sértækar aðgerðir sem geta verið sársaukafullar, til að breyta. En það var líka sársaukafullt að þurfa að hætta að reykja á bar, byrja að nota öryggisbelti og hætta að hafa börnin laus í skottinu. Við þurfum ekkert endilega að kalla þetta forræðishyggju, við getum líka kallað það umhyggju, eða bara nútímann.“

Ísland er alltaf framarlega í alþjóðamælingum á jafnrétti þó svo að fullkomnu jafnrétti sé enn ekki náð. Andrea bendir á að þar eigum við að nýta tækifærin.


„Við þurfum ekkert endilega að kalla þetta forræðishyggju, við getum líka kallað það umhyggju, eða bara nútímann.“


„Við eigum að vera sönn jafnréttisparadís og landið sem önnur horfa til. Nú þegar við erum búin að taka mikil framfaraskref í tækninni, ættu tækifærin að vera jafnari þegar við erum öll við sama skjáinn. Hættum að þykjast að vera að gera góða hluti í jafnréttismálum. Nú er tækifæri til að víkka út og hleypa fleirum að. Jafnrétti fyrir mér er sprelllifandi, frelsandi afl sem gefur og gefur. Jafnrétti er bara ákvörðun. Gerum þetta bara,“ segir hún ákveðin að lokum.“

Viðurkenningarhátíð FKA verður sjónvarpað á Hringbraut, miðvikudaginn 27.janúar klukkan 21. Hér er Andrea ásamt viðurkenningarhöfum síðasta árs, Guðbjörgu Heiðu Guðmundsdóttur, Önnu Stefánsdóttur, Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur og fleirum.
Athugasemdir