Fornleifar hafa fundist í Grímsey en þar fer nú fram fyrsti fornleifauppgröfturinn í sögu eyjunnar.

Hildur Gestsdóttir fornleifafræðingur segor að fundurinn bæti miklu við þær upplýsingar sem við höfum um byggð í Grímsey. „Í rauninni erum við í fyrsta skipti að geta sagt söguna út frá fornleifunum en sagan sem við segjum út frá þeim er ekki endilega sú sama og við segjum frá í hinum rituðu.“

Vegna fundarins mun þurfa að hnika til staðsetningu hinnar nýju kirkju sem stendur til að byggja eftir að kirkja Grímseyjar brann síðastliðinn september. Hún mun færast 4 metra í austur en mun þó snúa í sömu átt og áður.

„Minjastofnun fór fram á að það yrði gerð fornleifakönnun eftir brunann og við grófum hér prufuskurði og komum þá niður á töluvert þykka öskuhauga sem virðast frá miðöldum og eru grynnstu lögin frá því í kringum lok 19. aldar,“ segir Hildur og bætir við:

„Við teljum okkur vera búin að finna landnámslagið sem fellur þá 877 og við sjáum merki um mannvist rétt ofan við það."

Elsta kirkjan fundin

Elstu heimildir benda til þess að kirkja hafi fyrst staðið í Grímsey í kringum 1300 og er margt í fundinum sem bendir til þess að búið sé að finna hið upprunalega kirkjustæði.

Hildur bendir á: „Við komum niður á kirkjugarðsvegg sem við teljum að sé sú kirkja. Fyrir innan hann sjáum við einnig nokkrar grafir. Eftir að þær fundust var tekin sú ákvörðun um að færa endurbygginguna og leyfa þannig fólkinu að hvíla hér áfram“