Tólf blaðamönnum Microsoft hefur verið sagt upp og mun fréttavefurinn MSN héðan í frá birta fréttir eftir gervigreind. Greint er frá þessu á vef Guardian.

„Ég hef lesið mér mikið til um sjálfvirkni og hvernig gervigreind er að taka yfir störfin okkar og nú er ég í þessari stöðu,“ sagði einn blaðamannanna í samtali við Guardian.

Blaðamenn MSN sinntu nokkurs konar ritstjórnarstörfum og birtu því ekki efni eftir sig sjálfa heldur tengdu fréttir frá öðrum vefmiðlum og fréttaveitum. Stjórnendur Microsoft hafa nú lýst því yfir að gervigreind geti sinnt því starfi.

Viðskiptamaðurinn og fjölmiðlamaðurinn Shelly Palmer skrifaði í grein sinni frá árinu 2017 að blaðamennska væri meðal fimm greina til að hverfa fyrst með aukinni sjálfvirkni. Þó er ekki talið líklegt að gervigreind muni taka yfir rannsóknarblaðamennsku á næstu árum.