Microsoft gekk í dag frá kaupsamningi á leikjafyrirtækinu Activision Blizzard fyrir 68,7 milljarða dala eða um níu billjónir íslenskra króna.

Blizzard framleiðir marga af vinsælustu tölvuleikjum heims, meðal annars Call of Duty, World of Warcraft og Candy Crush.

Yfirmaður tölvuleikjadeildar Microsoft, Phil Spencer, segir að von sé á vinsælustu leikjum Blizzard stæðu til boða í áskriftarþjónustu Xbox og Microsoft á næstunni.

Það á enn eftir að ganga frá fjölmörgum lagalegum atriðum en stjórnendur Microsoft vonast til þess að kaupin gangi í gegn á næsta ári.

Um leið verður Microsoft þriðja stærsta leikjafyrirtæki heims með kaupunum á eftir kínverska framleiðandanum Tencent og japanska framleiðandanum Sony sem gefur út Playstation leikjatölvurnar

Blizzard hefur átt erfitt uppdráttar undanfarna mánuði eftir að fjölmargir starfsmenn lýstu eitraðri vinnustaðarmenningu. Þar lýstu kvenkyns starfsmenn fyrirtækisins ítrekaðri kynferðislegri áreitni af hendi karlkyns samstarfsfélaga sinna.

Fyrirtækið samþykkti síðastliðið haust að greiða 18 milljónir dala í skaðabætur og er sú sáttagreiðsla til skoðunar. Um 40 starfsmenn hafa sagt upp störfum á hálfu ári.

Activision Blizzard er annar tölvuleikjaframleiðandinn sem Microsoft kaupir á einu ári eftir að Microsoft greiddi 7,5 milljarða dala fyrir Bethesda á síðasta ári.