Fyrirtæki Michele Ballarin, USAerospace Partners Inc, bað í gær um að teknar yrðu vitnaskýrslur af 11 manns, tengdum hinu fallna flugfélagi WOW Air, til að leita sönnunar um hvar flugrekstrarhandbækur félagsins enduðu. Meðal þeirra eru Arnar Már Magnússon, Sveinn Ingi Steinþórsson og Þóroddur Þóroddsson forsvarsmenn flugfélagsins Play.

Fleiri fyrrverandi starfsmenn WOW Air eru á listanum í beiðni, sem Páll Ágúst Ólafsson lögmaður Ballarin sendi á Héraðsdóm Reykjaness, sem og Sveinn Andri Sveinsson skiptastjóri þrotabúsins og Páll S. Pálsson hjá Samgöngustofu.

„Umbjóðandi minn telur fullvíst að þessir aðilar geti varpað ljósi á þá atburðarás sem átti sér stað á þessum tíma þegar WOW air hf. fer í þrot, sem og atburðarás áður og í kjölfarið,“ segir í beiðninni.

Lögmaður Ballarin vill að 9 fyrrverandi starfsmenn WOW beri vitni.
Fréttablaðið/Ernir

Þegar WOW Air hafi farið í þrot, í mars árið 2019, hafi ein verðmætasta eignin verið flugrekstrarhandbækurnar, sem væru gríðarmiklar að umfangi og forsenda þess að flugfélag geti fengið leyfi sem flugrekandi hjá Samgöngustofu. Meðal bóka má nefna Þjálfunarhandbók, Viðhaldshandbók, Gæðahandbók og Öryggishandbók.

Hafi handbækurnar og fylgiskjöl þeirra ekki verið í gögnunum sem fyrirtæki Ballarin keypti, þrátt fyrir fullyrðingar skiptastjóra um annað og ekki enn fundist innan þrotabúsins, hvorki á rafrænu formi né prentuðu.

„Í því sambandi má nefna það að finnist áðurnefnd gögn er nauðsynlegt að vita hvort öryggishandbók WOW air hafi verið notuð af Fly Play því þá má segja að bókin sé ónothæf þar sem innihald hennar eru upplýsingar um það hvernig WOW air hagaði sínum öryggismálum, sem er eitthvað sem má ekki vera á almenni vitorði,“ segir í beiðninni.

Ætla mætti að bækurnar hafi verið til staðar við gjaldþrotið þar sem félagið hafi ekki geta starfað án þeirra. Hljóti þeim því að hafa verið eytt. „Umbjóðandi minn hefur ástæðu til að ætla að afrit hafi verið tekið af framangreindum flugrekstrarhandbókum, ásamt fylgiskjölum, án heimildar og vitneskju umbjóðanda míns, og gögnin hagnýtt af þriðja aðila til þess að sækja um flugrekstrarleyfi.“

sveinn-andri.jpg

Sveinn Andri var skiptastjóri WOW Air en hefur ekki fundið bækurnar.

Þetta félag sé Play, þá WAB, sem sótti um flugrekstrarleyfi í júní árið 2019. „Það sem rennir stoðum undir þessar grunsemdir er sú staðreynd að Fly Play hf., sem þá hét WAB ehf., er stofnað 7. mars 2019 af þáverandi starfsmönnum WOW air hf. , þremur vikum fyrir gjaldþrot WOW air hf. Tilteknir starfsmenn félagsins virðast því hafa haft að minnsta kosti þrjár vikur til að taka afrit af flugrekstarhandbókum WOW air hf. og síðar hagnýta þær í rekstri nýs félag, án þess að afla sér tilskilinna heimilda fyrir því,“ segir í beiðninni.

Fullyrt er að það sé nánast ógerningur að vinna umsókn um flugrekstrarleyfi með tilheyrandi handbókarskrifum og skjalagerð á innan við þremur mánuðum án þess að hafa fyrirmyndir til að byggja á. „Verður því að telja í ljósi atvika málsins að fyrirsvarsmenn Fly Play, þá WAB hafi hagnýtt sér flugrekstrarhandbækur og fylgiskjöl WOW air hf. í leyfisleysi.“

Með beiðninni fylgja skjöl, þar á meðal úr samskiptaforritinu Messenger þar sem sjá má samtal um bækurnar hjá manneskju sem starfaði hjá WOW og síðar Play. „Er ekki bara verið að nota WOW bækurnar? Það myndi stytta þetta“ er spurt og „No comment á þessa spurningu,“ er svarið.