Nýi miðbærinn á Selfossi hefur fengið Svansvottun og er þar með stærsta einstaka verkefnið sem hlotið hefur slíka vottun á Íslandi. Vottunin tekur til þrettán bygginga sem samtals eru 5.500 fermetrar.

Samkvæmt tilkynningu frá Umhverfisstofnun hefur mikil áhersla verið lögð á umhverfismál við uppbyggingu miðbæjarins. Samið var við Umhverfisstofnun 2019 um Svansvottun á byggingum.

Við afhendingu vottunarinnar á Selfossi í mánudag sagði Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdarstjóri Svansins, Svansvottun bygginga í mikilli sókn og eftirspurn og áhugi á þeim hafi vaxið svo um munar undanfarin ár.

„Það skiptir virkilega miklu máli að verkefni af þessari stærðargráðu sæki um umhverfisvottun en það sýnir mikla samfélagslega ábyrgð og eiga aðstandendur verkefnisins hrós skilið,“ segir Elva.

Í Svansvottun felst að allar byggingar- og efnavörur sem notaðar eru við framkvæmdir séu umhverfisvottaðar. Vörurnar þurfa að uppfylla strangar kröfur um innihald skaðlegra efna. Meginmarkmið vottunarinnar er að draga úr umhverfisáhrifum bygginga, sporna við hnattrænni hlýnun og vernda heilsu þeirra sem koma að verkinu á framkvæmdatíma.