Meðal helstu útlitsbreytinga má nefna nýtt grill, nýjar fimm arma álfelgur, fjölljósa díóðuljós í aðalljósum að framan og aftan auk þess sem hleðsluhöfnin hefur verið færð yfir á aftanvert vinstra frambretti, en var áður staðsett framan á bílnum.

Í farþegarými er komin aukin snjalltækni og má sem dæmi nefna að USB innstungum hefur verið fjölgað um þrjár. Farþegar hafa nú m.a. aðgang að þráðlausri símahleðslu, þremur A USB tengjum og tveimur C USB tengjum.

Aðalbreytingin er þó sú að rafmótorinn í nýja bílnum er snarpari en í forveranum, rafhlaðan er stærri og langdrægari í Luxury þar sem farið er úr 263 km í 440 km drægi. Með tengingu við 92 kW hraðhleðslu má svo hlaða stærri rafhlöðuna í allt að 80% á aðeins 40 mínútum auk þess sem 11 kW þriggja fasa hleðslutenging er meðal staðalabúnaðar í MG ZS EV Luxury, sem hefur 500 kg dráttargetu.

MG ZS EV var fyrst kynntur á meginlandi Evrópu síðla árs 2019 og alls hafa rúmlega fimmtán þúsund bílar verið seldir í álfunni sl. 24 mánuði og eru flestir í Bretlandi, Noregi, Svíþjóð, Hollandi og Frakklandi.