Risastór 19,4 tommu snertiskjár fyllir nánast allan miðjustokkinn í Marvel-R.

Allar útgáfur hans munu fá 70 kWst rafhlöðu sem gefur honum allt að 400 km drægi. Hleðslugetan er 92 kW að hámarki sem þýðir að hægt er hlaða úr 5% í 80% hleðslu á 43 mínútum. Einnig er hægt að nota hleðslutengi bílsins sem orkuforða en þar verður hægt að tengja allt að 2.500 watta raftæki. Innandyra verður nýtt upplýsingakerfi sem kallast iSmart og er miðpunkturinn 19,4 tommu skjár fyrir miðju ásamt öðrum 12,3 tommu fyrir framan ökumann. Kerfið er uppfullt af búnaði eins og Apple CarPlay, Amazon Music og upplýsingum um veður og umferð í rauntíma. Einnig er nettenging í bílnum ásamt smáforriti fyrir síma eigandans. Staðalbúnaður er ríkulegur en þar má nefna rafstillt ökumannssæti og glerþak ásamt díóðuljósum allan hringinn. Marvel-R mun kosta frá 6.299.000 kr. en bestu kaupin verða eflaust í fjórhjóladrifinni Performance- útgáfunni sem kostar frá 6.999.000 kr. Grunnútgáfa hans verður ekki í boði hjá BL til að byrja með.