Sinaloa mafían, leiðandi eiturlyfjaframleiðendur og smyglarar í Mexíkó, snýr sér nú að góðgerðarstörfum, ef svo mætti kalla, með því að veita aðstoð í fátækum hverfum á tímum samkomubanns og sóttkvíar.

Blaðamenn BBC fengu að hitta mafíósanna í Mexíkó fyrir umfjöllun þeirra og tóku upp einstakt myndefni sem gefur innsýn inn í heim eiturlyfjabarónanna.

Meðlimir Sinaloa segja nauðsynlegt að aðstoða fátæka fólkið í landinu sem ríkisstjórnin hefur brugðist. Þeir hafa útbúið pakka með nauðsynjavörum; klósettpappír og ýmsu matarkyns, og dreift í fátækustu hverfin. Pakkanna merkja þeir með nafni El Chapo sem er fyrrverandi leiðtogi mafíunnar.

Andrés Manuel, forseti Mexíkó, segir þetta ekki góða hjálp í faraldrinum. Glæpasérfræðingar hafa sömuleiðis bent á að þetta sé ekki gert af góðvild, heldur til þess að vinna inn traust almennings til að gera lögregluyfirvöldum erfiðara fyrir.

Almannaútvarpið í Bandaríkjunum (PBS) var einnig með umfjöllun um starfsemi mafíunnar í kórónaveirufaraldrinum. Þar er rætt við íbúa sem segjast óánægðir og vonsviknir út í ríkisstjórnina.

Forsetinn er sakaður um að hafa brugðist seint og illa við COVID-19. Engin fjárhagsleg aðstoð er í boði fyrir fyrirtæki sem hafa þurft að hætta starfssemi. Því neyðast margir til að fara út úr húsi til að reyna að afla sér einhverra tekna. Útgöngubann er í gildi en ekki virt.