„Það er miklu og þungi fargi af okkur létt,“ segir Ragnhildur Helga Jónsdóttir, formaður Veiðifélags Andakílsár þar sem vel hefur tekist til við endurreisn árinnar eftir gríðarlegt óhapp vorið 2017. Tilraunaveiðar þar í sumar gengu framúrskarandi vel.

Áætlað var í upphafi að fjögur til fimm þúsund rúmmetrar af seti hafi farið í Andakílsá, er starfsmenn Orku náttúrunnar tæmdu inntakslón Andakílsvirkjunar 15. maí 2017. Síðar var talið að magnið hafi verið allt að 25 þúsund rúmmetrar að sögn Ragnhildar. Fram kom á vef Landssambands veiðifélaga í maí 2017 að aur hafi fyllt alla hylji árinnar.

„Við erum búin að leggja gríðarlega mikla vinnu í endurreisn vistkerfisins. Við höfum tekið klakfisk og alið seiði úr þessum sérstaka Andakílsárstofni,“ lýsir Ragnhildur. Miklu efni hafi verið mokað úr ánni eftir óhappið og veiðistaðir verið lagfærðir eins og hægt sé.

Til tilraunaveiðanna voru fengnir menn sem gjörþekkja Andakílsá. „Þessir veiðimenn geta sagt okkur alveg nákvæmlega hvernig áin hefur breyst,“ útskýrir Ragnhildur.

Að sögn Ragnhildar er nú betur hægt að meta hvort laga megi þá veiðistaði sem hafa spillst. „Kannski getum við búið til einhverja aðra staði til að vega á móti,“ segir hún. Áin hafi komið mun betur út en veiðimennirnir hafi búist við. „Það eru allir ánægðir með hvernig hefur til tekist.“

Yfir 650 laxar veiddust í Andakílsá í sumar þann 61 dag sem veiðin stóð frá frá 15. júlí til dagsins í gær á aðeins eina stöng. „Þetta er langmesta veiði á stöng á dag á landinu að því er best ég veit,“ segir Ragnhildur. Og miðað við tölur á vef Landssambands veiðifélaga kemst engin á í hálfkvisti við Andakílsá.

Aðspurð, segir Ragnhildur, greiðir Orka Náttúrunnar útlagaðan kostnað vegna endurreisnar Andakílsár. „Hins vegar hefur feiknarleg vinna lent á okkur í stjórn veiðifélagsins. Við höfum ekki fengið hana að öllu leyti borgaða en við höfum átt í mjög góðu samstarfi við ON. Þeir hafa staðið sig með prýði.“

Í gær voru þaulvanir menn úr árnefnd Andakílsár sem lokuðu veiðinni þetta sumarið. „Áin þolir veiði næsta sumar og það verður farið í sölu veiðileyfa, en við sjálfsagt þrengjum reglurnar frá því sem áður var,“ segir Ragnhildur sem undirstrikar að ráðleggingum Hafrannsóknarstofnunar hafi verið og verði fylgt í einu og öllu.