Mette Frederiksen, formaður Sósíaldemókrata, verður næsti forsætisráðherra Danmerkur. Þetta er niðurstaða fundar fjögurra flokka sem rætt hafa myndun nýrrar ríkisstjórnar í Kristjánsborgarhöll í allt kvöld.

Að sögn Frederiksen er um að ræða minnihlutastjórn Sósíaldemókrata, sem fengu flesta þingmenn kjörna í kosningunum, sem varin verður falli af Sósíalíska þjóðarflokknum, Radikale Venstre og Einingarlistanum (Enhedslisten).

Frederiksen sagði að sameiginlegur skilningur væri á milli flokkanna fjögurra um að hún yrði í forystusæti næstu ríkisstjórnar Danmerkur. Ennfremur að hún muni ganga til fundar við Danadrottningu í fyrramálið í þeim tilgangi að greina frá því að stjórnarmyndunarviðræður hafi tekist.

Flokkarnir fjórir eru samtals með 91 þingmann kjörinn af þeim 179 sem komust inn á Folketinget. Þeirra á meðal eru tveir frá Færeyjum og jafnmargir frá Grænlandi. Tuttugu dagar eru síðan kosningar fóru fram í Danmörku og eru stjórnarviðræðurnar þær lengstu í yfir þrjá áratugi.

Umfjöllun danska ríkissjónvarpsins.