Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur mun fara á fund Margrétar Danadrottningar klukkan 11 í dag til að tilkynna henni niðurstöður alþingiskosninganna sem fóru fram í gær.
Vinstri-miðjuflokkar tryggðu sér í kosningunum og er Metta Frederiksen í dönskum miðlum titluð sem sigurvegari kosninganna en kosningabandalag hennar, Rauða blokkinn, tryggði sér alls 90 sæti af 197 sætum, þar af tvö þingsæti í Grænlandi og eitt í Færeyjum.
Gert er ráð fyrir því að hún haldi umboðinu sínu til að mynda nýja ríkisstjórn. Flokkur Mette, Sósíaldemókratarnir, fékk þvert á spár sína bestu kosningu í áratugi og er alls með 27,5 prósent atkvæða og er þannig stærsti flokkurinn á Folketinget, þingi Dana.
Frederiksen neyddist til að halda kosningar í kjölfar nýrrar skýrslu um minkaskandalinn svokallaða. Allir minkar landsins voru aflífaðir í miðjum heimsfaraldri en samkvæmt nýrri skýrslu um málið var enginn lagalegur grundvöllur fyrir því að aflífa minkana. Þrátt fyrir að Frederiksen sé ekki talin hafa vitað að enginn lagalegur grundvöllur hafi verið fyrir því að aflífa minkana hefur málið verið henni og ríkisstjórn hennar erfitt.
Niðurstöður kosninganna sýna einnig að nú eru Móderatarnir, flokkur Lars Lokke Rasmussen, þriðji stærsti flokkurinn í Danmörku sem er talinn nokkur sigur fyrir flokkinn, sem er nýr.