Ofbeldið sem um ræðir átti sér stað frá árinu 1945 og allt til ársins 1976. Börn á umræddum heimilum, um allt land, voru þá misnotuð kynferðislega, hýdd og byrluð ólyfjan. Upplýsingar um ofbeldið komu opinberlega fram í heimildarmyndinni Drengehjemmet árið 2005 þar sem greint var frá ofbeldi á Godhavn-barnaheimilinu.

Í kjölfarið voru stofnuð sérstök samtök utan um málið og óháð rannsókn á ofbeldi á barnaheimilum sett af stað. Skýrsla rannsakenda var birt árið 2011 og leiddi rannsóknin í ljós að börn á nítján heimilum hefðu mátt þola ofbeldi.

Danska ríkisútvarpið ræddi við Poul-Erik Rasmussen, sem var á Godhavn-barnaheimilinu frá 1962 til 1965, í gær. Hann sagði tilfinninguna í gær óraunverulega. „Við höfum beðið þessa dags í áraraðir og ég hafði velt því fyrir mér hvernig forsætisráðherra myndi biðjast afsökunar. Ég vona að forsætisráðherrann muni eftir öllum þeim sem gátu ekki verið viðstaddir og þeim sem hafa fallið frá,“ sagði Rasmussen.