Suður-Afríski met­sölu­höfundurinn Wilbur Smith er látinn 88 ára að aldri. Að sögn út­gefanda hans lést Smith á heimili sínu í Cape Town í gær með eigin­konu sína Niso sér við hlið.

Eftir Smith liggja 49 bækur sem hafa selst í meira en 140 milljónum ein­tökum víða um heim. Fjórar af bókum hans hafa verið þýddar yfir á ís­lensku; Gull, Fálkinn flýgur, Englar gráta og Menn með mönnum.

Smith vakti mikla at­hygli fyrir fyrstu skáld­sögu sína, When the Lion Feeds, sem kom út árið 1964 og fjallar um ungan mann sem elst upp á bú­garði í Suður-Afríku á tímum Zúlu­stríðsins og gull­æðisins.

Hann sagði í við­tali við BBC árið 2013 að bókin hafi að hluta til verið byggð á hans eigin ævi en hann lifði sjálfur mjög ævin­týra­legu lífi og var meðal annars veiði­maður, kafari og flug­maður.

Smith fæddist í Sam­bíu árið 1933 inn í breska fjöl­skyldu og ólst upp á stórum bú­garði. Hann fluttist á full­orðins­árum til Suður-Afríku.