Mikil úrkoma fylgdi óveðrinu sem gekk yfir landi í gær og í nótt og vöknuðu Mývetningar margir við háa snjóskafla. Birgir Örn Höskuldsson veðurfræðingur hjá Veðurstofunni segir það ekki óvanalegt að það snjói á þessu tíma árs en að magnið hafi verið óvanalegt. Hann segir að það séu ekki margar mælingar enn komnar inn og að það séu að einhverju leyti óáreiðanlegar vegna mikils vinds og því sé ekki mikið jafnfallið og töluvert um skafla.
Þær mælingar sem voru komnar inn, við Grímsstaði á fjöllum og í Bárðardal var alhvítt og um tíu sentimetrar af snjó.
Hann segir að veðurspáin hafi að miklu gengið eftir en að úrkoman sé erfið til mælinga í miklum vindi því úrkoman er vanmetin. „Það var mikil úrkoma en óvissan í veðrinu voru áhrifin sem það myndi hafa á innviði og það kemur væntanlega í ljós í dag hvernig það var.“
Komast ekki langt á fólksbílnum
Margrét Bóasdóttir er stödd í Mývatnssveit og birti í gær bæði myndir og myndskeið af snjó og vindi.
„Myndbandið var tekið í gær. Það er að lægja en það er rosalegur snjór. Bíllinn er kominn á kaf. Við sjáum bara hvíta þúfu fyrir utan dyrnar,“ segir Margrét og hlær létt.
Hún segir að það hafi verið mjög hvasst í gær og að þau komist líklega ekki langt á fólksbílnum sínum í dag. Hún segir að það sé þú búið að ryðja en þau ætli að sjá hvernig staðan verður á morgun þegar þau höfðu planað að fara heim en hún er í heimsókn í sveitinni.
„Það sem bjargaði okkur hérna var að fyrir nokkrum árum brotnuðu allar rafmagnslínur í miklu óveðri og þá var það lagt í jörð. Þess vegna fór það ekki hjá okkur og engin hætta lengur á rafmagnsveseni,“ segir hún.
Hér að ofan og neðan má sjá myndir og myndband sem Margrét birti.
„Við tökum þessu með æðruleysi. Við erum í heimsókn á bernskuheimili mínu. Það er dásamlegt og það væsir ekki um okkur,“ segir hún að lokum.

Mikið magn í október
Kolla Ívarsdóttir er búsett í Mývatnssveit og vaknaði einnig við sama raunveruleika.
„Þetta er að mestu upp við húsið en afleggjarinn að heimilinu er 2,5 kílómetrar og það eru svona skaflar þar,“ segir Kolla.
Hún hélt að skaflinn upp við húsið væri í kringum einn metri eða 1,20 og sagði stöðuna líka vera þannig inni í Reykjahlíð þar sem hún er að vinna.
„Snjórinn er samanþjappaður. Bílarnir voru brynjaðir af í klaka og maður þurfti að berja í hurðarfölsin til að ná að opna hann,“ segir hún og að hitastig hafi verið við frostmark.
„Þetta er svo mikið magn á stuttum tíma. Það er bara byrjun október þannig þetta er dálítið mikið,“ segir hún spurð hvort þetta sé snemmt fyrir snjóinn á svæðinu.

Norðausturland: Lokað er á Hólasandi, Vopnafjarðarheiði, Mývatns- og Möðrudalsöræfum og á Dettifossvegi. Ófært er á Hellisheiði eystri. Þungfært er á Sandvíkurheiði, þæfingsfærð er á Hófaskarð snjóþekja eða hálka er á öðrum leiðum. #færðin
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) October 10, 2022