Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 10. september 2021
23.00 GMT

Um liðna helgi var sýningin Rómeó og Júlía í leikstjórn Þorleifs loks frumsýnd eftir eins og hálfs árs undirbúning. Þorleifur segir viðbrögðin hafa verið frábær og það sannast þar sem við sitjum á kaffihúsi í miðbænum og gestir óska honum til hamingju með uppsetninguna sem sé á allra vörum.

Á liðnu ári gerði Þorleifur samning við Þjóðleikhúsið um uppsetningu einnar sýningar á ári, næstu árin, en ljóst er að verkin verða að líkindum fleiri. Eftir að hafa starfað í stærstu leikhúsum Evrópu undanfarin ár var Þorleifur ráðinn yfirmaður leiklistarmála hjá einu virtasta leikhúsi Þýskalands, Volksbühne í Berlín. Þangað hafði hann stefnt frá því hann útskrifaðist sem leikstjóri en þegar á hólminn var komið og Þorleifur hafði gegnt stöðunni í rúmt ár, á tímum heimsfaraldurs, þurfti hann að endurskoða drauminn.

Listamaðurinn Þorleifur hafði ráðið stefnunni svo lengi að einstaklingurinn hafði látið í minni pokann. Hann sagði upp stöðu sinni og ferðaðist á milli leikhúsa í Evrópu þar sem hann sagði sig frá fjölmörgum verkefnum þó að einhver hangi inni á næstu árum, og flutti heim með fjölskyldunni.

Samvinnan stækkar sambandið


Eiginkona Þorleifs, myndlistarkonan Anna Rún Tryggvadóttir, hannaði búninga í Rómeó og Júlíu ásamt Urði Hákonardóttur og hefur því mikið mætt á heimilislífinu undanfarið. „Ég næ stundum að stela henni inn í leikhúsið og það stækkar sambandið að geta unnið svona saman. Það er æðislegt, þó ég sé ekki viss um að sonur okkar sé sammála um það,“ segir Þorleifur og hlær.

„Eldri sonur okkar sem er 17 ára hefur í raun tekið heimilishaldið að sér og aðstoðað mikið með þann sem er yngri, tíu ára. Hann steig inn; fór og verslaði í matinn, svæfði bróður sinn og svo framvegis. Þetta bjargaði okkur.“


„Ég næ stundum að stela henni inn í leikhúsið og það stækkar sambandið að geta unnið svona saman."


Þorleifur og Anna Rún kynntust fyrir um þrettán árum síðan.

„Hún var að heimsækja vinkonu sína, Elínu Hansdóttur, sem ég þekki, í Berlín. Þær sátu á mexíkóskum kokteilastað við götuna þar sem ég bjó. Það hefði aldrei hvarflað að mér að fara inn á þennan stað en þar sem ég gekk fram hjá ásamt systur minni og mági sá ég Elínu inn um gluggann. Ég ætlaði að heilsa upp á hana en kom því varla að þegar ég sá manneskjuna við hlið hennar. Ég var algjörlega dolfallinn,“ segir Þorleifur um þennan fyrsta fund þeirra hjóna.

Þorleifur segir oft stutt í egóið í leikhúsinu og þá sé mikilvægt að muna að kjarninn í starfinu sé þjónustan. Fréttablaðið/Eyþór

„Tveimur dögum síðar samþykkti hún svo að hitta mig á stefnumóti. Ég sótti hana í matarboð, bauð henni í garð í Berlín þar sem er tilkomumikið sovéskt minnismerki um sigurinn yfir Berlín. Það má því segja að ég hafi á fyrsta stefnumóti boðið henni í fjöldagröf enda eru um þrjú þúsund hermenn grafnir þarna.“

Sér til varnar bendir Þorleifur þó á að um sé að ræða einn fallegasta stað Berlínar.

„Við áttum yndislegt kvöld og ákváðum að hittast daginn eftir en þá kom vandræðalega deitið þar sem við nánast komum ekki upp orði. Þetta var að flosna upp þegar hún var að losa lásinn á hjólinu sínu og ég fékk skilaboð frá félaga mínum um að lausir miðar væru á Radiohead-tónleika í borginni. Ég leit því á hana og spurði hvort hana á langaði á Radiohead-tónleika og á þessum tónleikum urðum við kærustupar.“


Starfaði fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Á þessum tíma var Þorleifur að ljúka leikstjórnarnámi í Berlín og kominn með einhver atvinnutilboð úti en leiðin lá heim þar sem listamaðurinn tók við starfi hjá Sjálfstæðisflokknum.

„Ég hef alltaf verið pólitískur en ekki endilega flokkspólítískur. Þetta var rétt eftir Hrunið og vinur minn, sem var framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, bauð mér starf. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort hann hafi verið alveg galinn að fá einhvern brjálaðan listamann til liðs við sig en ég held að á þessum tímapunkti, mitt í Hruninu, hafi verið gott að hafa einhvern alveg ótengdan pólitíkinni á svæðinu. Þetta var mjög erfitt fyrir Önnu,“ segir Þorleifur og hlær.

En það voru fleiri sem voru hissa á þessu næsta skrefi listamannsins.

„Á þessum tíma var bróðir minn fremstur í flokki hjá aðgerðasinnum, móðir mín var að vinna með Samfylkingunni, systir mín er í dag í stjórn leiklistarfélags Viðreisnar og pabbi var á sínum tíma kommúnisti. Svo umræðurnar yfir sunnudagssteikinni voru vægast sagt fjörlegar,“ rifjar hann upp í léttum tón.


„Ég hef oft velt því fyrir mér hvort hann hafi verið alveg galinn að fá einhvern brjálaðan listamann til liðs við sig en ég held að á þessum tímapunkti, mitt í Hruninu, hafi verið gott að hafa einhvern alveg ótengdan pólitíkinni á svæðinu."


„En þarna skildi ég að ekkert er eins hollt og að þurfa að horfast í augu við fordóma. Ég hafði verið alinn upp við mikla andstöðu gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Vissulega er margt sem hægt er að gagnrýna í þeim flokki en að vinna með fólkinu þarna inni og fylgjast með því í ómögulegum aðstæðum er reynsla sem ég bý að bæði í lífinu og í listinni.

Ég sá skýrt að þrátt fyrir mismunandi aðferða- og hugmyndafræði eru flestar manneskjur, sama hvar þær standa í pólitík, að reyna sitt besta. Okkur hættir til að dæma þá sem eru okkur ekki sammála á mórölskum forsendum fremur en að takast á hugmyndafræðilega.

Það var mjög hollt fyrir mig að komast í þetta umhverfi akkúrat þegar ég var að klára skólann úti og byrja ferðalagið vitsmunalega og listrænt; að fara inn í umhverfi þar sem ég var að vinna með fólki sem ég hélt að mér myndi ekki líka við. Sem reyndist svo sannarlega ekki raunin. Í dag á ég miklu erfiðara með að vera reiður út í pólitíkusa, enda held ég að þetta starf sé ansi oft varla vinnandi vegur.

Á þessum tíma snéri fólk líka mikið bökum saman og það var ákveðin sátt um grundvallarlínurnar, svipað og við upplifðum framan af í Covid. Það tel ég stuðla almennt að mikið betri pólitík.“


Komið að skuldadögum

Talið berst að kosningunum fram undan og segist Þorleifur enn ekki hafa gert upp hug sinn og ólíkt því sem áður hefur verið komi allt að fjórir möguleikar til greina. Hann er þó alveg með á hreinu hvað sé mikilvægasta málefnið, umhverfismálin.

„Stærsta málefnið fyrir kosningar hlýtur að vera sú staðreynd að við stöndum frammi fyrir mest aðkallandi verkefni mannkynssögunnar og það er algjörlega heimatilbúið vandamál. Ég held að eldri kynslóðir megi prísa sig sælar að það sé ekki bara allt brjálað enda er búið að liggja fyrir frá því á sjöunda áratugnum hvað myndi gerast ef CO2 yrði pumpað stanslaust út í umhverfið.

Þetta er stóra lygin um að endalaust megi nota kreditkortið en reikningurinn komi aldrei. En nú bara er komið að skuldadögum og við verðum að taka ábyrgð á því bæði persónulega og pólitískt.“


„En nú bara er komið að skuldadögum og við verðum að taka ábyrgð á því bæði persónulega og pólitískt.“


Næsta sýning Þorleifs í Þjóðleikhúsinu, Án titils, fjallar um áföll og úrvinnslu þeirra en málefnið er Þorleifi hugleikið.

„Samkvæmt kenningum sálfræðingsins Jungs samanstendur sálin af skugga og ljósi. Áföll fara í skuggann sem aftengir þig áfallinu en þar býr enginn umbreytingarmáttur. Síðan kemur að því að áfallið ryður sér leið frá skugganum yfir í ljósið og þá er katastrófan óumflýjanleg.

Ég tel að þetta eigi við á bæði stórum sem smáum skala, í því persónulega sem í hnattrænu samhengi. Hamfarahlýnun er tráma okkar kynslóðar sem ferðast nú úr skugganum yfir í ljósið. Og það er núna okkar verkefni að umbreyta katastrófunni í lærdóm frekar en að falla með henni niður í skuggann. Og því mun fylgja þjáning, rétt eins og í lífinu. Spurningin er alltaf hvernig unnið er úr þjáningunni.“


Hrokinn var minnimáttarkennd


„Ég hætti að drekka mjög ungur,“ segir Þorleifur sem upplifði grunnskólagönguna sem hræðilega raun og fór snemma að fikta við áfengisneyslu og síðar bættust harðari efni við. „Ég hefði alveg bókað fengið ADHD-greiningu í dag en þó ekki sé lengra síðan var maður bara stimplaður sem vandræðaunglingur.

Það gekk alveg svo langt að ég var rekinn úr Austurbæjarskóla fyrir að slást við skólastjórann. Mamma fann kennara á eftirlaunum sem heitir Pálína og bjó í Hamraborginni, til að taka mig upp á sína arma.“

Þorleifur segist að einhverju leyti hafa fært kraftinn úr sársaukanum sem hann upplifði sem ungur maður yfir í metnaðinn og hann hafi mögulega farið úr böndunum. Fréttablaðið/Eyþór

Í hálft ár lærði Þorleifur því í Hamraborginni eða þar til hann byrjaði í Álftamýrarskóla. Erfiðleikarnir héldu þó áfram í nýja skólanum þar sem aftur átti að reka hann.

„Ég heyrði síðar að umsjónarkennarinn minn, Linda Rós Mikaelsdóttir, sem var ströng en talaði þó alltaf við mig á jafningjagrundvelli, gekk inn á skrifstofu skólastjórans og sagði að ef drengnum yrði vikið úr skóla gengi hún út með honum. Ég var augljóslega erfiður en þarna var manneskja sem sá eitthvað annað en vesenið og vanlíðanina. Kerfið átti að funkera og börnin samlagast því en mér finnst ofboðsleg breyting hafa orðið á þessari afstöðu hér heima.“

Á svipuðum tíma og Þorleifur hætti að drekka hóf hann nám í leiklistarskólanum.

„Ég var hættur að drekka en það var djúpt á sársaukanum og minnimáttarkenndinni sem birtist sem hroki og yfirgangur,“ segir Þorleifur sem segist hafa breitt yfir líðan sína með mikilli sýniþörf.


„Ég var hættur að drekka en það var djúpt á sársaukanum og minnimáttarkenndinni sem birtist sem hroki og yfirgangur.“


„Mér finnst þegar ég horfi til baka að ég sé að tala um tvo menn. Ég skil ekki hvernig ég lifði af með svona ofboðslegan sársauka. Allar þessar aðferðir sem ég beitti og voru svo ofboðslega vitlausar héldu mér samt gangandi og urðu loks til þess að hlutirnir færðu sig frá myrkrinu yfir í ljósið.“

Alltaf á annarri bylgjulengd

Aðspurður hvaðan þessi mikla vanlíðan hafi sprottið segist Þorleifur alltaf hafa upplifað sig utanveltu, að hann passaði ekki inn.

„Ég var alltaf tvístraður. Mamma og pabbi lenda í ofboðslegum fjárhagserfiðleikum, pabbi slasast á sama tíma og verðtryggingin var tengd og lánin margfölduðust. Alla æskuna fluttum við út á sumrin til að breyta húsinu í gistiheimili enda var það eina leiðin sem foreldrar mínir sáu til að halda þessu gangandi. Ég skil í raun ekki hvernig þau fóru að þessu með fimm börn á listamannalaunum. Í raun hetjulegt.

Það voru því margir þættir sem komu saman en einhvers staðar í grunninn var ég aldrei á bylgjulengd með heiminum í kringum mig.

Ég hef alltaf haft djúpstæða þörf fyrir að túlka samfélagið og hafa einhverja rödd en upplifði mig um leið á skjön við þetta sama samfélag. Eins var flókið að búa yfir þessari þrá en vera aldrei kynntur með nafni heldur sem sonur foreldra minna. Þau voru líka umdeild og oft þurfti maður að svara fyrir þeirra skoðanir sem komu manni ekkert við.

Ég er því í stóru uppgjöri á þessum tíma en þó ekki kominn með rétt tæki í sjálfsvinnuna á sama tíma og ég á að vera að opna á djúpar tilfinningar í skólanum.“


„Ég er því í stóru uppgjöri á þessum tíma en þó ekki kominn með rétt tæki í sjálfsvinnuna á sama tíma og ég á að vera að opna á djúpar tilfinningar í skólanum.“


Systurmissirinn


Þegar Þorleifur var á lokasprettinum í leiklistarnámi missti hann elstu systur sína, Guðrúnu Helgu, sem dó úr krabbameini tæplega fertug. Þau systkinin deildu afmælisdegi og var mikil og sterk tenging þeirra á milli.

„Hún hafði greinst með brjóstakrabbamein 29 ára gömul og síðar komu upp meinvörp í lifrinni. Þegar ég var að æfa lokauppsetninguna með nemendafélaginu fékk hún flensu. Ég var þá að mörgu leyti lentur í sjálfum mér, var búinn að sleppa tökunum á miklu af þessum grunnótta og gremju og farinn að eignast smá traust á ljósinu í lífinu.

Hún hringdi í mig og lýsti magaverkjum sem hún upplifði. Sjálfur hafði ég upplifað magavandamál tengd kvíða. Hún spurði mig hvort ég þekkti einkennin sem hún var að upplifa. Ég vissi að þetta var ekki það sem ég þekkti en heyrði á henni að það væri það sem hún þyrfti að heyra og svaraði því á þann hátt.

Morguninn eftir missti hún meðvitund og var færð á sjúkrahús þar sem í ljós kom að krabbinn hafði dreift sér um allt,“ útskýrir Þorleifur en Guðrún Helga komst aldrei aftur til meðvitundar.

„Hún var einn stofnenda styrktarfélagsins Krafts og í þessi fimm ár frá því meinvörpin fundust og þar til hún lést, var hún ofboðslega aktív. Það sat ofboðslega í mér að hafa ekki sagt henni satt í okkar síðustu samskiptum þó það hefði ekki breytt neinu um útkomuna.

Enn þann dag í dag hugsa ég oft til þessa þegar ég stend frammi fyrir því að segja fólki eitthvað sem er erfitt. Ég reyni að vera kærleiksríkur en það er ekki alltaf kærleikur að segja ekki satt.“


„Það sat ofboðslega í mér að hafa ekki sagt henni satt í okkar síðustu samskiptum þó það hefði ekki breytt neinu um útkomuna."


Stutt í egóið í leikhúsinu


Eftir frumsýningu í leiklistarskólanum fór Þorleifur til systur sinnar á spítalanum og sama kvöldið lést hún.

„Jarðarförin fór fram frá Hallgrímskirkju sem var full út úr dyrum og stóð fólk í anddyri og fyrir utan. Ein ástæða mætingarinnar var sú að án þess að borið hefði mikið á því hafði hún verið með neyðarsíma Krafts í mörg ár og tekið á móti símtölum veiks fólks og veitt því stuðning. Hún hafði stundað svo ofboðslega þjónustu sem eftir á séð hafði djúpstæð áhrif til þess að hún lifði svo hamingjusömu og litríku lífi eftir að hún greindist aftur.

Þegar ég áttaði mig á því hversu gríðarleg áhrif hún hafði með því að vera svona til staðar varð það leiðarstef fyrir mig. Þegar maður vinnur í mínum geira er oft stutt í egóið en maður verður að muna að kjarninn í leikhúsinu er þjónustan.

Í vikunni voru til að mynda fimm sýningar á Rómeó og Júlíu sem við gáfum ungu fólki. Okkur langaði að ná inn í þennan aldurshóp sem hefur þjáðst hvað mest í samkomutakmörkunum en minnst verið talað um. Þetta er hræðilegt því þarna eru allir týndu kossarnir og týndu ástarsamböndin, hljómsveitirnar sem urðu ekki til og vinaböndin sem ekki sköpuðust.“

Sýningin Rómeó og Júlía í leikstjórn Þorleifs var frumsýnd um liðna helgi og segja má að hér fái hin klassíska ástarsaga Shakespeare hressandi andlitslyftingu.

Þorleifur sökkti sér í vinnu eftir systurmissinn og um hálfu ári síðar heimsótti hann vin sinn heitinn, Þorvald Þorsteinsson, til Los Angeles. „Þar fékk ég bara taugaáfall.“

Segja má að nú sé Þorleifur að loka hring sem þarna hófst.


Sagði sig frá öllum samningum


„Ég er nú búinn að setja upp yfir 60 sýningar á fimmtán árum og verkefnin hafa stækkað og stækkað,“ segir Þorleifur og bætir við að mikið flakk fylgi verkefnunum. „Meðfram þessu er maður svo alltaf að reyna að halda öllum boltum á lofti.“

Fyrir um tveimur árum stóð Þorleifur frammi fyrir ákvörðun, hann hafði ráðið sig til eins virtasta leikhúss Þýskalands og á borðinu voru tilboð frá fleiri húsum. Á sama tíma átti yngri sonurinn mjög erfitt uppdráttar í þýska skólakerfinu.

„Ég fann að ég þyrfti að taka ákvörðun. Hann þyrfti mikið meiri athygli og tíma núna og okkur fannst við verða að fara með hann heim. Ég var orðinn listrænn stjórnandi í leikhúsinu sem mig hafði dreymt um að stjórna frá tvítugu. Þetta er eitt best fjármagnaða leikhús Evrópu og þarna mótaðist að mörgu leyti það nútímaleikhús sem við þekkjum í dag.


„Ég fann að ég þyrfti að taka ákvörðun. Hann þyrfti mikið meiri athygli og tíma núna og okkur fannst við verða að fara með hann heim."


Ég fann skýrt að þetta er allt bara hjóm og að ég þyrfti að vera annars staðar núna. Ég sagði mig frá öllum samningum og við komum heim. Ég fann það um leið og ég lenti hérna að það var eins og mér væri stungið í samband. Ég held að maður vanmeti oft hversu djúpstæð tengsl okkar eru við íslenska náttúru og þjóðarsál. Ég finn sterkt að mitt hlutverk í dag sé að gefa af mér hingað.“

Fann ofboðslegan létti


„Það sem maður óskar sér tvítugur er ekkert endilega það sem maður er að leita að þegar maður kemst þangað. En maður þarf kannski að gera það til að átta sig. Á sama tíma og ég stend á þessum tímamótum er Magnús Geir að taka við Þjóðleikhúsinu og við hefjum samtal. Ég fann að ég sem er búinn að vera gestur í íslensku leikhúsi lengi, hefði mikið fram að færa með víðtækri reynslu minni.

Ég er alveg enfant terrible í þýska samhenginu en hef fengið frípassa því ég er eins konar aðskotahlutur en hérna er ég ekki að utan.

Auðvitað er ógeðslega erfitt að horfast í augu við að það sem maður var að stefna að svo lengi var ekkert endilega það sem maður var að leitast eftir, hvorki sem listamaður né sem manneskja. En þegar ég þurfti að fókusera á son minn fann ég að þá varð þetta ekkert vandamál.

Mér eiginlega brá við hversu auðvelt það reyndist. Ég fann svo ofboðslegan létti en hafði ekki áttað mig á hvað ég hafði borið á herðunum.

Þorleifur segist vera "enfant terrible" í þýska samhenginu og þar hafi hann fengið frípassa sem eins konar aðskotahlutur en hér sé hann ekki að utan. Fréttablaðið/Eyþór

Metnaðurinn fór úr böndunum


„Ég hafði að einhverju leyti fært kraftinn úr sársaukanum yfir í metnaðinn og hann fór kannski úr böndunum. Ég var alltaf að reyna að navígera á milli lífsins og listarinnar og líka á milli metnaðarins og sálarfriðarins. Kannski var ég bara búinn að fullnægja metnaðnum. Ég var kominn á toppinn og þurfti ekki að gera það tíu sinnum.

Þegar þú ert kominn upp á Everest er nefnilega fullt af öðrum spennandi tindum. Það er hugarfarið sem þarf að endurstilla. Ég bý að því að eiga frábæran feril en ég ætla ekki lengur að láta það stjórna lífi mínu. Þá er maður ekki jafn góður vinur og maður ætti að vera né sonur, eiginmaður eða pabbi.“


„Ég var alltaf að reyna að navígera á milli lífsins og listarinnar og líka á milli metnaðarins og sálarfriðarins."


Þorleifur lýsir hugarfarsbreytingunni sem löngu ferli.

„Í bíómyndunum er þetta eitt móment en reynsla mín af lífinu er þannig að maður gerir uppgötvunina og þá byrjar úrvinnslan. Jung talar um að til þess þurfi hugrekki og visku og ef maður nær að tengjast þessu tvennu mun áfallið umbreytast í ljós og stækka andann.

Ég held að þetta sé algjörlega rétt. Það er ekkert sérstaklega merkilegt að átta sig á einhverju. Við vitum oft að við erum að gera eitthvað rangt. Miklu erfiðara er að fara í gegnum það að breyta vana og væntingastjórnun okkar.“ ■

Athugasemdir