Veður­stofa Ís­lands og almannavarnir lýsa yfir ó­vissu­stigi vegna ofan­flóða­hættu á Austur­landi frá klukkan 20. Það er gert vegna mikillar rigningar­spár næsta einn og hálfa sólar­hring. Nokkuð er um snjó í fjöllum og við þær að­stæður gætu vot snjó­flóð fallið, jafn­vel krapa­flóð eða skriður þegar líður á veðrið sem spáð er.

Veður­stofan fylgist með að­stæðum, sér­fræðingar eru á staðnum og notuð eru sjálf­virk mæli­tæki. Á morgun verður metið hvort grípa þurfi til ráð­stafana, meðal annars á Seyðis­firði þar sem skriður féllu í desember.

Mikið tjón varð á Seyðis­firði í desember.
Ljósmynd/Almannavarnir

Veður­spá gerir ráð fyrir vaxandi suð­austan­átt sem byrjar í kvöld, sem rigning á lág­lendi en slydda eða snjó­koma á fjöllum. Á morgun hlýnar í veðri og gæti rign upp í fjall­stoppa sem í suð­austan í vindi milli 13 til 18 metra úr suð­austri. Sömu­leiðis er spáð upp­safnaðri úr­komu milli 100 til 200 mm en dregur mjög úr úr­komu að­fara­nótt mánu­dags.