Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, segist vonast til að farið verði yfir mengunarmál í Vestmannaeyjahöfn og þau færð til betri vegar. Í fyrradag var metið slegið í fjölda skráðra lundapysja í Pysjueftirlitinu, og voru 52 pysjur háfaðar upp úr höfninni það kvöld. Mál um olíuleka og olíublauta lunda í Vestmannaeyjum er til athugunar hjá Umhverfisstofnun.

Starfsfólk Sealife Trust, og fyrrum Fiskasafns Vestmannaeyja sjá um að hreinsa lundana og koma þeim aftur í sjóinn. Um hundrað fuglar koma úr Vestmannaeyjahöfn ataðir svartolíu á hverju ári. Fuglarnir eru þrifnir en þá tekur nokkurn tíma fyrir þá að jafna sig. Hafnaryfirvöld segja að engin svartolía sé í Vestmannaeyjahöfn.

„Það væri gaman að sjá útgerðirnar sýna sína ábyrgð með þátttöku í slíkum úrbótum,” segir Erpur í samtali við fréttamiðil Vestmannaeyja, Eyjar.net. Erpur bendir á að hafnaryfirvöld í Færeyjum notist á við góðan búnað til að skima yfirborðsmengun stöðugt.

Á hverju ári koma íbúar og sjálfboðaliðar hvaðanæva af landinu saman í Vestmannaeyjum til að bjarga pysjum sem villast í bæinn. Mikill fjöldi lundapysja er í Vestmannaeyjahöfn og skjóta kunnugir á að um 200 - 300 pysjur séu í höfninni. Komist fuglarnir í olíu missa þeir flotið og sökkva og drepast.

Heildarfjöldi pysja í ár er 6.264 samkvæmt pysjueftirlitinu hjá SEA LIFE Trust í þekkingarsetrinu.

„Pysjur dagsins voru samtals 651, en þar af voru 52 pysjur sem háfaðar voru upp úr höfninni í gærkvöldi. Við munum næstu daga prófa vatnsheldni þeirra, sleppa þeim sem eru í lagi en hreinsa þær sem þess þurfa. Heildarfjöldinn er nú kominn upp í 6264 pysjur,“ segir í tilkynningu SEA LIFE Trust.