Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ´78, segir að það sé sögulegt að það séu minnst fjórir opinberlega hinsegin þingmenn og telur að það sé met. Hlutfall hinsegin þingmanna á þingi er þá 6,3 prósent miðað við stöðuna eins og hún er núna, fyrir endurtalningu í Suðurkjördæmi.
Hlutfallið breyttist þegar atkvæði voru endurtalin í Norðvesturkjördæmi. Þá breyttist samsetning þingmanna og fjórði hinsegin þingmaðurinn datt inn á þing, Orri Páll Jóhannsson í Vinstri grænum.
„Ég þori ekki að fullyrða um það en ég tel það nokkuð öruggt að það hafi aldrei verið jafn margir opinberlega hinsegin á þingi,“ segir Þorbjörg.

Þekkja veruleika hinsegin fólks
Hún segir að það skipti máli að hafa fyrirmyndir og telur að þetta sýni að stjórnmálaflokkarnir hugsi um það að setja hinsegin fólk efst á lista.
„Það var fjöldi hinsegin fólks á lista en ekki nógu ofarlega til að komast inn,“ segir Þorbjörg en þingmennirnir sem um ræðir eru þau Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra og oddviti vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi. Jódís Skúladóttir sem var í þriðja sæti sama flokks í Norðausturkjördæmi, Orri Páll Jóhannsson sem var í öðru sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður hjá VG og svo sú fjóra Hanna Katrín Friðriksson sem leiddi lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.
„Öll svona skref skipta máli og sýnileiki hinsegin fólks inni á þinginu skiptir máli. Það er mikilvægt að hafa fólk þar sem þekkir veruleika hinsegin fólks af eigin reynslu,“ segir Þorbjörg að lokum.
Ef það verða ekki frekari sviptingar þá erum við í það minnsta með metfjölda hinsegin þingmanna þetta kjörtímabilið (4!) 🏳️🌈
— Þorbjörg Þorvaldsdóttir (@torbjorg) September 26, 2021
Raddir hinsegin fólks við borðið
Jódís Skúladóttir, þriðji þingmaður Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi, fagnar því að svo margir hinsegin þingmenn séu á þingi, eins og staðan er núna.
„Það var geggjuð niðurstaða að konur væru í meirihluta í gær, þó að það hafi breyst, en þetta er einmitt líka gríðarlega mikilvægt og fjölbreytileiki þingmanna. Að við séum af öllum kynjum, stéttum, allskonar uppruna, því við erum í vinnu hjá þjóðinni sem er samsett af gríðarlega ólíkum hópum,“ segir Jódís
„Ég held að þetta sé gríðarlega mikilvægt og að raddir hinsegin fólks séu raunverulega við borðið þegar verið er að taka ákvarðanir og leggja línurnar í þeim málaflokki.“
Þrír þingmannanna eru úr flokki VG og Jódís segir það segja mikið um flokkinn sjálfan.
„Við erum flokkur fjölbreytileikans og komum úr öllum áttum og stéttum og eru allskonar. Sem er okkar dýrmætasti mannauður,“ segir hún að lokum.