Metfjöldi nýnema, eða 1.700 í grunn-, meistara- og doktorsnámi, mun hefja nám við Háskólann í Reykjavík í haust. Það er um 20 prósenta fjölgun frá síðasta ári, að því er fram kemur í tilkynningu

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, segir að unnið hafi verið hörðum höndum að því að nemendur geti stundað nám sitt sem mest í skólanum og nýtt aðstöðuna þar innan marka sóttvarnareglna.

„Það er fagnaðarefni að unnt sé að hefja skólaárið með eins metra fjarlægðartakmörkunum í stað tveggja, eins og við höfðum gert ráð fyrir. Það gerir okkur kleift að sinna fleiri nemendum á staðnum á sama tíma og allt háskólastarfið verður fyrir vikið eðlilegra,“ segir Ari Kristinn.

Fyrirlestrum verður streymt eða þeir teknir upp og settir á netið. Lögð verður áhersla á að nemendur geti mætt í verklega tíma, dæma- og umræðutíma og aðra tíma sem byggja á viðveru og samstarfi.