„Við fögnum þessari fjölgun heils hugar,“ segir Steinunn Þórðar­dóttir, for­maður Lækna­fé­lags Ís­lands, um fregnir af met­fjölda nem­enda í sér­námi í heimilis­lækningum. Hún segir aukninguna þó ekki duga til að mæta þörfinni.

Í til­kynningu frá heil­brigðis­ráðu­neytinu í gær kom fram að 95 læknar væru skráðir í sér­nám í heimilis­lækningum í dag, í saman­burði við 38 árið 2017. Um­tals­verð fjölgun sé fyrir­sjáan­leg og við bestu að­stæður muni 57 læknar ljúka náminu á næstu þremur árum.

„Sam­kvæmt út­reikningum Lækna­fé­lagsins vantar 80 heimilis­lækna til starfa á landinu. Sá skortur mun aukast með vaxandi í­búa­fjölda, ferða­manna­fjölda og öldrun þjóðarinnar,“ segir Steinunn.

„Þetta er ekki að fara að fylla upp í það tóma­rúm sem er þegar til staðar í mönnun. Á þessum þremur árum sem 57 eru að út­skrifast eru 30 læknar að hætta sökum aldurs.“

Steinunn segist sömuleiðis þekkja dæmi þess að sérnámslæknar hafi flúið úr sérnámi á Landspítalanum yfir á heilsugæsluna út af ofurálagi á spítalanum.

„Þannig að þar er líka mikill skortur. Þetta er frekar lítill hópur, þessi hópur sérnámslækna. Þegar einn hópur styrkist er annar kannski að veikjast á sama tíma.“