Gríðarlega margir lögðu leið sína að gosinu í gær og myndaðist löng röð að gígnum um kvöldið eins og sjá má á Twitter færslu ferðamannsins Ryan Newburn sem birtist í gærkvöldi.

Mesti fjöldi frá upphafi

Samkvæmt ferðamálastofu lögðu 6496 manns leið sína að gosinu á laugardag en það er mesti fjöldi síðan talningar hófust.

Samkvæmt Steinari Þór Kristinssyni, svæðisstjóra hjá Björgunarsveitinni Þorbjörn var sömu sögu að segja frá deginum í dag en allt stefnir í að met verði slegið í fólksfjölda á gosstöðvunum þessa helgi.

„Það er allt stappað hérna“ sagði Steinar en gott veður hefur verið á gosstöðvunum í dag og því eflaust margir sem ákváðu að nýta tækifærið.

Aldrei skorast undan kallinu

Að sögn Steinars lýst björgunarsveitum mjög vel á tillögur Jóns Gunnarssonar, dómsmálaráðherra um að landverðir muni koma til með að leysa þær af en landvörðum var einnig beitt í síðasta gosi sem stóð í 6 mánuði. Að sögn Steinars reyndist það úrræði mjög vel en flestir meðlimir björgunarsveita Íslands hafa mætt í sjálfboðastarfi til að sinna gæslu hjá gosinu hingað til.

Aðspurður hvort einhverjir meðlimir björgunarsveita séu farnir að skorast undan því að mæta launalaust að gosstöðvunum segir hann það ekki svo „Við höfum aldrei skorast undan kallinu“ sagði Steinar.

Steinar Þór Kristinsson, svæðisstjóri björgunarsveitarinnar Þorbjörn
Mynd/aðsend

Fífldjarfir ferðamenn

Björgunarsveitir hafa þó haft í nægu að snúast en nokkuð er um að fólk hugi ekki nægilega að eigin öryggi á gosstöðvunum.

Í myndbandi sem birtist á Youtube í dag má sjá ferðamenn sem ganga beint að hrauninu og ofan á nýstorknað bergið. Um stórhættulegt athæfi er að ræða þar sem undir skorpunni rennur enn bráðið hraun sem auðveldlega er hægt að stíga ofan í.

Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.