„Við höfum aldrei séð annan eins fjölda barna smitaðra á leik- og grunnskólaaldri. Afföll eru mjög víða,“ segir Helgi Grímsson, formaður fræðslusviðs hjá Reykjavíkurborg, í samtali við Fréttablaðið.

Tæplega þriðja hvert barn á leikskólastigi var með skráð forföll í skólakerfinu í borginni í gær. Á grunnskólastiginu voru 22% barna forfölluð eða meira en fimmta hvert. Inni í þessum tölum eru sóttkví, einangrun, önnur veikindi eða fjarvera vegna ákvörðunar foreldra að sögn Helga.

Heildarfjöldi forfallaðra skólabarna var í gær 5.300 samanlagt.

Helgi Grímsson, formaður fræðslusviðs hjá Reykjavíkurborg.
Fréttablaðið/Ernir

Seljaskóli, Dalsskóli og Fellaskóli hafa orðið hvað harðast úti. Þar hefur verið skert starfsemi, Seljaskóla var alveg lokað um tíma og mörg dæmi um að kennsla i heilu árgöngunum hafi fallið niður í öðrum skólum.

Hefðbundið starf ekki til lengur

„Það má segja að hefðbundið skólastarf samkvæmt námskrá sé almennt ekki unnið í skólum i dag. Forföll starfsmanna eru einnig mjög mikil,“ segir Helgi.

Staðan hefur versnað vegna covid dag frá degi frá áramótum. Enn verður ekki séð að toppnum hafi verið náð að mati Helga. Sem dæmi voru forföll starfsmanna vegna einangrunar og sóttkvíar 7,3% fyrsta skóladag ársins. Nú eru covid-forföllin 12,2 prósent of eru þá önnur forföll ótalin. Um 20% starfsfólks leikskóla og grunnskóla eru utan vinnustaðar.

Engin starfsemi er í 45 deildum í leikskólum borgarinnar vegna covid.