Metfjöldi farþega af skemmtiferðaskipum mun sækja Ísland heim í sumar, ef kórónaveiran raskar ekki áætlunum.

Þetta segja Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands, og Erna Kristjánsdóttir, markaðs- og gæðastjóri Faxaflóahafna.

Bókaðar komur til Akureyrar, Grímseyjar og Hríseyjar eru 197. Áætlað er að farþegar á þessum skipum verði um 200.000 talsins og er þá aðeins átt við Eyjafjörðinn.

„Það yrði met. Við erum hætt að tala um fjölda skipa, heldur er það stærð skipanna og farþegafjöldinn sem skiptir mestu máli. Það stefnir í met ef allt skilar sér,“ segir Pétur.

Það sem var þó skemmtilegt í fyrra var að mörg lítil skip komu við á minni stöðum

Von er á miklum umskiptum, því í fyrra komu vegna faraldursins aðeins rétt um 32.000 farþegar með skemmtiferðaskipum norður.

„Það sem var þó skemmtilegt í fyrra var að mörg lítil skip komu við á minni stöðum,“ segir hann.

Pétur segir að beinar tekjur hafnar­innar slagi í hálfan milljarð af þessum skipum, ef allt gengur eftir.

Að sögn Péturs hefur verið reiknað út að 30 milljarðar streymi, ef allar afleiddar tekjur eru teknar með í reikninginn, inn í þjóðarbúið á landsvísu með öllum viðkomum skipa um land allt, það er ef vírusinn setur ekki strik í reikninginn. Heilsárs­störf vegna komu skipanna séu á bilinu 300-400.

Hjá Faxaflóahöfnum fengust þær upplýsingar að erfitt væri enn að spá fyrir um hvort áætlun muni stand­ast. Ef veiran haldi sig til hlés verði um met að ræða hvað farþegafjölda varðar.

Alls eru bókaðar 194 skipakomur farþegaskipa til Faxaflóahafna árið 2022, með um 219 þúsund farþega innanborðs.

Ef áætlun stenst verða fyrstu skipakomur ársins í mars, tvær talsins, þrjár skipakomur verða í apríl, en síðan hefjast siglingar „af alvöru í byrjun maí“, að sögn Ernu Kristjánsdóttur, markaðs- og gæðastjóra Faxaflóahafna. Síðasta koma farþegaskips er áætluð í október.

Nokkur skip munu sigla til Faxaflóahafna í fyrsta sinn árið 2022. Helst má nefna Le Commandant Charcot, sem kemur frá Ponant. Skipið er hannað á þann hátt að það er með ísbrjót til að sigla á norðurslóðir. Þetta mun verða fyrsta farþegaskipið sem siglir hingað til Reykjavíkur og er knúið náttúrulegu gasi.

„Við munum sjá í maí/júní hvernig þetta þróast. Sumarið verður í öllu falli betra en í fyrra,“ segir Erna Kristjánsdóttir.