Alls 6.496 ein­staklingar fóru um gossvæðið við Mera­dali í gær sam­kvæmt talningu Ferða­mála­stofu. Þetta er mesti fjöldi sem hefur farið um svæðið síðan Ferða­mála­stofa hóf talningu, fimm dögum eftir að eld­gos hófst í Geldinga­dölum í mars í fyrra. Fyrra met er frá 28. mars 2021, en þá fóru 6.032 ein­staklingar að gos­stöðvunum í Geldinga­dölum.

Frá því talningar hófust í fyrra hafa alls 472.677 manns farið um gossvæðið á Reykja­nes­skaga.

Eftir­lit við­bragðs­aðila gekk vel í gær og í nótt, en þrjá­tíu og tveir björgunar­sveitar­menn gegndu vett­vangs­stjórn í og við gossvæðið í gær. Yfir nóttina voru færri björgunar­sveitar­menn að störfum.

Í til­kynningu frá lög­reglu­stjóranum á Suður­nesjum reyndist gangan mörgum göngu­manninum erfið og þurftu björgunar­sveitar­menn að að­stoða sau­tján ein­stak­linga við að komast niður af fjallinu. Ein­hverjir höfðu gefist upp á göngunni og aðrir meiddust lítil­lega, en þurftu samt sem áður hjálp við að komast til baka frá eld­stöðvunum.